145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:35]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér þykir persónulega þetta mál alveg eins eiga heima í þjóðaratkvæðagreiðslu. Mér finnst hins vegar mikilvægt að það sé ákvörðun þjóðarinnar hvað fari í þjóðaratkvæðagreiðslu og hvað ekki. Ég lít ekki á það sem neitt aukaatriði heldur aðalatriði. Píratar hafa talað mikið um þjóðaratkvæðagreiðslur og margir aðrir líka, sér í lagi eftir umræðurnar í kringum stjórnarskrána og frumvarp stjórnlagaráðs eftir hrun o.fl. og reyndar hefur sú umræða staðið lengur yfir.

Þjóðaratkvæðagreiðslur eru ekki í sjálfu sér markmið, þær eru tæki til sjálfsákvörðunar. Til þess að sá sjálfsákvörðunarréttur geti orðið virtur og virkur að fullu tel ég að frumkvæðið þurfi að koma frá þjóðinni. Þess vegna mundi ég ekki leggja til, að óbreyttu, breytingartillögu við þetta frumvarp um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess að mér finnst það ekki vera mitt að segja það. Ef það kæmi hins vegar mjög skýrt ákall frá þjóðinni sem mundi standast þau ákvæði sem ég aðhyllist að verði í stjórnarskrá í sambandi við þjóðaratkvæðargreiðslur, þ.e. vilji 10% kosningarbærra manna eða svo, þá mundi ég vissulega standa að slíku. Það sama á við í ESB-umræðunni. Mér þykir sjálfsagt að þjóðin fái að ákveða málefni sem hana varðar innan þeirra marka auðvitað sem löggjafanum eru sett. Almenningur á ekkert frekar en Alþingi að geta brotið mannréttindi eða því um líkt. Við erum öll bundin af stjórnarskrá.

Þetta er þannig mál að það er í svo ríkum mæli gildisspurning að ég sé ekki fram á að það sé í raun og veru hægt að komast að einhverri einni réttri eða rangri niðurstöðu nema út frá einhverju djúpstæðu gildismati sem ég var ekki heldur kosinn til að verða fulltrúi fyrir, að mínu mati. Ég get ekki verið fulltrúi þess. Ég get verið fulltrúi fyrir stefnu og hugmyndafræði sem ég ver og berst fyrir af fremsta megni en þegar kemur að svona gildisspurningum þykir mér mjög mikilvægt að þjóðin fái tækifæri til að segja sína skoðun og raunverulega stjórna málunum, en því miður eru þær aðstæður ekki fyrir hendi eins og er.