151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

atvinnuleysi og staða atvinnuleitenda.

[13:59]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Síðastliðið ár höfum við mátt sætta okkur við að atvinnulífið sé í hægagangi og sumir geirar meira og minna í frosti vegna heimsfaraldursins. Engum atvinnuvegi hefur þó verið greitt þyngra högg en ferðaþjónustunni. Almennt atvinnuleysi var 11,4% í febrúar samkvæmt nýjustu tölum frá Vinnumálastofnun en stofnunin spáir því að almennt atvinnuleysi minnki í mars og verði á bilinu 10,9–11,3%. Mesta atvinnuleysið í febrúar var á Suðurnesjum, eða 25,4% og hafði minnkað úr 26% í janúar. Það er ánægjulegt að lítillega dragi úr atvinnuleysi en það er alveg ljóst að við þurfum að sjá mun stærri stökk á komandi mánuðum. Sumarið er í eðlilegu árferði háannatími í ferðaþjónustu. Auðvitað er afar ólíklegt að svo verði í ár þrátt fyrir að þeir sem eru bólusettir og búsettir utan Schengen-svæðisins megi koma til landsins framvísi þeir gildu vottorði um slíkt. Það er þó stórt skref í rétta átt. Ferðaþjónustan og atvinnulífið þurftu nauðsynlega aukinn fyrirsjáanleika til að geta starfað með sem eðlilegustum hætti. Ég óttast ekki að aukið svigrúm á landamærum valdi heilsufarsógn. Nú eru bólusetningar í fullum gangi og viðkvæmustu hóparnir, svo sem sjúklingar, framlínufólk og aldraðir, hafa fengið sprautuna, enn aðrir eru með mótefni, hafa fengið Covid og sigrast á sjúkdómum. Þá má ekki gleyma því að læknar hafa mun meiri þekkingu og reynslu til að meðhöndla sjúkdóminn en þegar veiran kom fyrst til landsins fyrir ári. Því er tímabært að örlitlu súrefni verði hleypt í þá atvinnuvegi sem mest þurfa á því að halda. Ég fagna því auknu svigrúmi á landamærunum. Verkefnið fram undan er að skapa áfram skilyrði fyrir því að fólk geti snúið aftur til starfa enda getur atvinnuleysið sjálft verið ógn við heilsu fólks til frambúðar.

Hæstv. forseti. Atvinnuleysi verður aðeins útrýmt með atvinnu. (Forseti hringir.) Bætur leysa ekki neitt. Ég trúi því að svigrúmið nú muni hjálpa til við að blása lífi í ferðaþjónustuna, tryggja fleiri vinnu og má ekki seinna vera.