151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

fullnusta refsinga.

569. mál
[15:40]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt, ég myndi ekki setja mig sérstaklega upp á móti því en legg hér til að þetta sé tímabundið, bæði af því að ég taldi að þessi breyting myndi taka styttri tíma, fara hraðar í gegnum þingið, svo við næðum árangri með hana á þessu þingi. Ég taldi einnig að við myndum vilja skoða betur hvort dómstólar ættu að dæma samfélagsþjónustu, hver viðbrögðin væru við afbrotum í kerfinu. Það er ekkert til fyrirstöðu að skoða það í hv. allsherjar- og menntamálanefnd, t.d. í takti við hin Norðurlöndin þar sem dómstólar hafa þessa heimild til að dæma, en það er stærri breyting á því úrræði sem almennt hefur gengið vel hjá Fangelsismálastofnun, að beita samfélagsþjónustu upp að ákveðnu marki. Ég myndi segja að hvatinn sé ekki bara boðunarlistinn, sem er hluti af vandanum, og allar breytingar sem lagðar voru til voru til að ná tökum á honum, ná honum niður, en líka til að bæta fangelsiskerfið okkar. Það er allt í takti við þá betrunarstefnu og annað sem við erum að vinna að, ég og félagsmálaráðherra, og tengist m.a. vinnu sem Tolli Morthens leiðir að aukinni betrun, eða bata eins og það er kallað, til að ná virkum einstaklingum aftur út í samfélagið eftir fangelsisrefsingu, sem er verkefni okkar; að refsa fyrir afbrot, búa til varnaðaráhrif en á sama tíma búa þannig um hnútana að það sé möguleiki að manneskjan komi sterkari til baka út í íslenskt samfélag. Sú vinna og sá hvati er líka að baki svona breytingum. Þessi breyting tekur styttri tíma og því lagði ég til að hún væri tímabundin að þessu sinni. En ég býst við að hv. allsherjar- og menntamálanefnd muni leggjast yfir þetta og velta möguleg upp hugmyndum sem oft hafa komið fram, hvort dómstólar eigi að hafa heimild til að dæma samfélagsþjónustu.