Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 67. fundur,  22. feb. 2023.

þingsköp Alþingis.

219. mál
[17:56]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P):

Forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi þess efnis að sett verði á fót nefnd sem nefnist Lögrétta. Nefndin hafi það hlutverk að gefa álit á því hvort lagafrumvarp sem liggur fyrir þinginu samrýmist stjórnarskrá og þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands. Markmið frumvarpsins er að stuðla að auknum gæðum í lagasetningu, að tryggja að frumvörp standist ákvæði stjórnarskrár og að þau uppfylli alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Þannig má stuðla að vandaðri meðferð lagafrumvarpa á Alþingi.

Frumvarp um að setja á fót Lögréttu byggir að hluta til á hugmynd stjórnlaganefndar sem var til umræðu á þjóðfundinum 2010. Í skýrslu stjórnlaganefndar frá 2011 um niðurstöður þjóðfundarins var fjallað um mögulegar útfærslur á því að setja á fót ráðgefandi stjórnlagaráð eða fjölskipaðan stjórnlagadómstól sem veitti álit sitt á því hvort efni lagafrumvarps samrýmdist stjórnarskrá. Álit þjóðfundarins var að til greina kæmi að stofna álitsgefandi nefnd eða ráð lögfróðra manna sem gæti að ákveðnu marki sinnt sambærilegu hlutverki og stjórnlagadómstóll.

Því miður er það staðreynd að hér á Alþingi hafa oft verið sett lög sem standast ekki stjórnarskrá, standast ekki alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og brjóta jafnvel á réttindum tiltekinna hópa. Það er ekki fyrr en mörgum árum seinna þegar æðstu dómstólar kveða upp dóm sinn sem endanleg niðurstaða fæst sem staðfestir brot löggjafans. Til að mynda var nýverið kveðinn upp dómur í Hæstarétti þar sem Hæstiréttur áminnti Alþingi fyrir að hafa ekki kannað samræmi lagasetningar við stjórnarskrá og þar með brugðist skyldu sinni sem löggjafi. Þá vísar dómurinn til greinargerðar frumvarpsins sem varð að lögunum sem um ræðir en í greinargerðinni segir einmitt að ekki hafi þótt tilefni til að skoðað yrði sérstaklega samræmi við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar. En þetta á bara við ef málið nær svo langt að fara fyrir dóm. Það eru nefnilega ekki öll brot á stjórnarskrá og á mannréttindum sem hægt er að fara með fyrir dómstóla.

Meiri hluti samþykktra laga á Alþingi eru stjórnarfrumvörp og eru þau einna helst samin í ráðuneytunum sjálfum eða sérstökum nefndum sem ráðherrar skipa. Það hlýtur að teljast óheppilegt fyrirkomulag að sömu aðilar sem semja meginþorra samþykktra lagafrumvarpa eigi einir að leggja mat á hvernig það samrýmist stjórnarskrá og alþjóðlegum skuldbindingum og við höfum séð hér trekk í trekk að það er ekkert að ganga þannig. Það færi miklu betur á því ef slíkt mat færi einnig fram af hálfu óháðra aðila. Það er nefnilega skylda okkar sem vinnum hér að tryggja faglega og góða lagasetningu sem brýtur ekki stjórnarskrá eða á réttindum einstakra hópa. Það að stofna nefnd fagaðila sem getur gefið þinginu sitt álit, kalli það eftir því, getur einmitt komið í veg fyrir að þingið endurtaki fyrri mistök sín og setja lög sem ekki standast stjórnarskrá. Það hlýtur að vera grunnkrafa að þegar við erum að setja lög þá stangist þau ekki á við eða brjóti stjórnarskrá eða alþjóðlega sáttmála sem við erum aðilar að. Ef okkur er raunverulega annt um að vernda mannréttindi íslenskra borgara sem tryggð eru í stjórnarskránni og alþjóðlegum mannréttindasamningum hljótum við að sameinast um að tryggja málinu framgöngu hér á þingi.