145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

almenn hegningarlög.

11. mál
[18:01]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég var að reyna að lesa í gegnum ríkissaksóknaraumsögnina. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig hún kemst að þessari niðurstöðu. Hún vísar í þessi tengsl, eins og hv. þingmaður kom inn á, milli geranda og þolanda og ærumeiðingar og svo að sá sem hafi orðið fyrir misgjörðum hefði þurft að höfða einkarefsimál. Hún kemur síðan inn á 2. gr. og skilur það þannig að tengslin, sem lögð eru til í frumvarpinu, eigi að tæma sök, ég skil það sem svo. Það verður áhugavert að heyra í ríkissaksóknara, hvernig embætti hennar tekur á þessu núna. Hún bendir á að ekki er tekið á því í frumvarpinu hvaða ákæruregla eigi að gilda um hin nýju ákvæði, varðandi 242. gr. almennra hegningarlaga, en bendir á að slíkt brot sæti opinberri ákæru. Ég geri þá ráð fyrir því, í ljósi þeirra mála sem dæmd hafa verið, að þegar ríkissaksóknari kemur á fund nefndarinnar komi hún með tillögu að því hvernig þetta eigi að líta út og svari því hvort hún sé enn á sömu skoðun, eða hvort við séum að misskilja framsetningu hennar nema hvort tveggja sé.