151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

atvinnuleysi og staða atvinnuleitenda.

[14:21]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Forseti. Ég ætla að halda aðeins áfram með þá eldræðu sem ég var komin í í fyrra slotti og braut meira að segja þingsköp í ákafanum. Ég ætla reyndar ekki að afsaka ákafann. Samtök iðnaðarins sendu nýlega frá sér myndband þar sem útskýrt er mjög vel og málefnalega hvers vegna það er svo mikilvægt að hækka endurgreiðsluprósentuna til kvikmyndagerðar í 35%. Önnur ríki gera þetta. Þau byggja stúdíó, þau taka verkefni sem við hefðum getað fengið hingað. Ég mun halda áfram að tönnlast á þessu. Við höfum staðnað hérlendis. Ef íslensk stjórnvöld hefðu hlustað fyrir ári síðan þá gætum við verið Írland núna. Við gætum fengið risastór verkefni, milljarða hingað inn og geirinn myndi vaxa og dafna. Samkeppnin harðnar. Ferðamála- og nýsköpunarráðherra er haldinn þeirri meinloku að Ísland sé samkeppnishæft á erlendri grundu í þessum málaflokki. Það er rangt, virðulegi forseti. Það er bara rangt. Í heilt ár hefur ekki verið hlustað og ég veit það vegna þess að í gær var útbýtt frumvarpi um endurgreiðsluprósentuna. Til stendur að framlengja, en talan er sú sama, 25%. En sú mæða.

En varðandi stefnu stjórnvalda í atvinnusköpunarmálum almennt skulum við hafa það í huga að atvinnumálin verða vissulega stærsta, með leyfi forseta, „póst“-Covid áskorunin. Nýlega var sett af stað sérstakt atvinnuátak undir yfirskriftinni Hefjum störf. Ef Covid hefði átt að kenna okkur eitthvað þá er það að það er hægt að stoppa og hugsa, íhuga og taka stöðuna. Það er ekkert hræðilegt þó að við séum ekki alltaf á milljón. Rétt fyrir Covid var gríðarleg umræða um kulnun í starfi og lífsörmögnun. Því hefði ég haldið að það væri mikilvægt nú að skapa sveigjanleika fyrir atvinnulausa til að feta sig inn á (Forseti hringir.) gjörbreyttan vinnumarkað á sínum hraða, á sínum forsendum, án flókinnar bírókrasíu og án þess að missa öryggisnetið. (Forseti hringir.) Hvernig væri að áherslan væri ekki alltaf á fyrirtæki? Hvernig væri að veðja á einstaklinginn?