Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 67. fundur,  22. feb. 2023.

þingsköp Alþingis.

219. mál
[18:15]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P):

Virðulegur forseti. Eins og hér hefur verið rakið þá eru ýmis ærin tilefni fyrir þessari tillögu og hún er hugsuð til að styrkja þingið og efla getu okkar þingmanna til að taka upplýstar ákvarðanir, að það sé hægt að leita til aðila sem er ekki inni í því ráðuneyti sem lögin eru gjarnan samin í, til að fá ráðgefandi álit á því hvort að lögin séu líkleg til að standast stjórnarskrá eða ekki. Þarna er verið að vinna gegn ráðherraræði þar sem lög eru samin á einum vettvangi og oft svolítið handahófskennt mat á því hvað er lagt þar til grundvallar. Svo skapast gjarnan pressa á meiri hlutann hverju sinni að samþykkja lögin eftir að það er búið að ákveða að ofan að þau eigi að fara í gegn. Umræður um atriði eins og hlítni við stjórnarskrá verða þá gjarnan svolítið eins og einhver skoðanaskipti þar sem allar skoðanir eru jafn réttháar og erfitt að henda reiður á því hvað er hið rétta. En þar sem það er hins vegar þingsins að afgreiða og samþykkja lög og á ábyrgð þess þá hljóta öll tæki sem sett eru upp til að styrkja okkur í okkar ákvarðanatöku að vera jákvæð, sér í lagi ef þau eru ekki íþyngjandi og valdið er áfram hjá þinginu.

Ég vildi líka að hugsa þetta út frá þeim geira sem ég er menntaður í og þekki vel, sem er hugbúnaðarþróun. Þar er verið að vinna með flókin kerfi, setja þau upp eða breyta og aðlaga og það gerist í fösum. Fyrst kemur hugmynd. Síðan er unnið að því að skrifa kóða og setja upp kerfi og samþætta og koma þeim í rekstur. Svo þegar þau eru komin í rekstur geta komið upp villur sem þarf að bregðast við og það getur verið mjög kostnaðarsamt og það er mjög þekkt og í rauninni er hægt að setja upp kostnaðarlíkön um það hversu mikið kostnaður við villur eykst eftir því hversu aftarlega í öllu ferlinu þær eru gripnar. Það er alltaf langódýrast að grípa villur fljótt, áður en að kerfið fer í rekstur. Það getur verið falinn mikill kostnaður í því að villur komi ekki fram fyrr en eitthvað er komið í notkun, ýmiss konar skaði sem hlýst af því og erfiðara að vinda ofan af villunum. Með því að haga því þannig í auknum mæli að hægt sé að greina og villugreina lagafrumvörp áður en þau eru samþykkt hlýtur að draga úr villum. Með þeim rökum að alltaf sé hægt að grípa mistök eða villur í lagasetningu eftir á með dómstólum þá er í rauninni verið að segja að það sé eðlilegt að kostnaðurinn falli þar, það sé bara eðlilegur fórnarkostnaður af því að kasta til hendinni við lagasetningu. Þannig að bara út frá gæðaeftirlitsvinkli þá er þetta mjög jákvætt, ekki síst út frá þeim vinkli að þetta efli völd þingsins.