131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Stjórn fiskveiða.

362. mál
[17:34]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ákvæðin sem hv. þingmaður vísar til eru vegna fyrri athugana á fiskveiðistjórnarkerfinu. Ég leyfi mér að draga þá ályktun að þær séu yfirstaðnar. Ákvæðin eru hins vegar áfram hluti af lagasafninu, eiginlega sem sagnfræðileg heimild um lagasmíð Alþingis. Hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu að skoða málin og má segja að það sé jafnan í gangi. Menn fara yfir stöðu einstakra fiskstofna á hverju ári. Segja má að rannsóknir og eftirlit Hafrannsóknastofnunar með fiskstofnunum sé stöðugt endurmat á líffræðilegri stöðu auðlindarinnar.

Einnig mætti segja að árlega fari fram einhvers konar athugun á því hvernig hagræni eða pólitíski þáttur fiskveiðistjórnarkerfisins gengur upp. Nýleg dæmi um verkefni sem hafa verið sett af stað er annars vegar svokölluð hágengisnefnd sem miðar að því að skoða stöðuna í ljósi vaxtastigs og gengis. Hins vegar má nefna að Verðlagsstofunni á Akureyri og Háskólanum á Akureyri hefur verið falið að meta samkeppnishæfni sjávarútvegs á Íslandi og bera saman við samkeppnishæfni sjávarútvegs í öðrum löndum.

Stöðugt eru í gangi verkefni og ástæðan fyrir því að þessi bráðabirgðaákvæði standa enn þá í lögum er að þau eru til vitnis um hvað hefur verið gert hvað þetta varðar í fortíðinni.