151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:02]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Það er gott að heyra að þessi mál eru í skoðun núna, þ.e. sálrænar og geðrænar afleiðingar vegna þessa, eins og hæstv. ráðherra nefnir. Ég ítreka það sem ég nefndi hér fyrr að afleiðingar atvinnuleysis eru auðvitað líka umfram það. Það eru líka beinar heilsufarslegar, líkamlegar afleiðingar af atvinnuleysi miðað við þær tölur sem við sjáum á Íslandi, tölur sem við höfum ekki þekkt í áratugi hér á landi, m.a. meðal ungs fólks. Ég held að ég get fullyrt að ég hafi séð tölur um atvinnuleysi upp á 26% á Reykjanesinu, yfir 20.000 manns atvinnulausir eða á einhvers konar bótum núna í bráðum heilt ár. Þetta eru ógnvænlegar tölur og mjög mikilvægt að menn átti sig á því þegar sóttvarnaaðgerðum er beitt. Þess vegna velti ég því líka fyrir mér þegar hæstv. ráðherra nefnir að hún hafi sett þessa hópa í gang í dag hvort það hefði nú ekki verið eðlilegt að vega og meta afleiðingar þeirra aðgerða í þessu tilliti þegar ákveðið var að grípa til ýmissa sóttvarnaaðgerða frá upphafi þessa faraldurs.

Ég hjó eftir því í fréttum frá Noregi í gær, þar sem gripið er til mjög harðra aðgerða sem margir furða sig á — það er búið að bólusetja um 250.000 manns í Noregi en gripið er til harðra aðgerða þar — að þar stígur fram hver prófessorinn á eftir öðrum, prófessor í sálfræði sem nefnir það einmitt sérstaklega að ráðist sé í þessar hörðu aðgerðir án þess að bera saman kostnaðinn og gagnsemina við afleiðingarnar. Prófessor í lögfræði tjáði sig líka um þessar aðgerðir og taldi Norðmenn vera komna á mjög grátt svæði með þessum aðgerðum í ljósi tilefnins og þess háttar.

Ég hef nefnt það líka í ræðu þegar ég hef fjallað um hina nýútkomnu rannsóknarskýrslu danska þingsins, þar sem farið var yfir allar sóttvarnaaðgerðir í Danmörku með tilliti til stjórnskipunar þar, að þar er sérstök ábending dönsku rannsóknarskýrslunnar að það sé mikilvægt að í upphafi svona hættuástands, ef menn vilja meta það þannig, faraldurs af þessum toga, sé strax komið á fót hópi manna eða a.m.k. vinnu til að skoða gagnsemi aðgerða og tilefni með tilliti til m.a. efnahagslegra afleiðinga lýðheilsu í miklu breiðari ljósi en bara því sem varpað er á viðkomandi faraldur. Þess vegna spyr hæstv. ráðherra: Hefði ekki verið lag, hefði ekki verið nauðsynlegt að leggja þetta mat, þessi lóð á vogarskálarnar strax í upphafi?