151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:09]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Það hafa orðið vatnaskil. Með ákvörðun sinni um að gera breytingar á sóttvarnareglum á aukafundi á mánudag og opna alveg á komu íbúa frá grænum löndum er ríkisstjórnin hætt að hlýða ráðleggingum sóttvarnalæknis um að taka ekki upp litakóðunarkerfi 1. maí og slaka þannig um of á takmörkunum. Þetta, ásamt ákvörðun dómsmálaráðherra, opnar landið enn meira á tímum þegar fjórða bylgjan er að hefjast í Evrópu. Sóttvarnalæknir hefur staðfest í fréttum RÚV að þessar ákvarðanir eru ekki í samráði við hann. Ekki í samráði við sóttvarnalækni, herra forseti.

Sama dag og ríkisstjórnin tók þessa ákvörðun gaf hún grænt ljós á markaðsátak ferðaþjónustuaðila um að Ísland sé opið og tilbúið að taka á móti ferðamönnum. Þessi ákvörðun er tekin án nægilegs samráðs við þingið og án allrar umræðu hér.

Herra forseti. Við erum búin að vera í draumastöðu og erum í draumastöðu vegna góðs árangurs í þéttu samstarfi við sóttvarnayfirvöld. Ætlum við að klúðra þeirri stöðu? Nei, ég held að enginn okkar vilji það. Þess vegna spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra: (Forseti hringir.) Hver er nákvæmlega skýringin á því að vikið er frá ráðleggingum sóttvarnalæknis?