151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:16]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er góð spurning hjá hv. þingmanni hverju við getum helst þakkað að við erum bæði með góða stöðu í faraldrinum hér innan lands og líka mikinn almennan stuðning við sóttvarnaráðstafanir. Ég held að þar sé mörgu fyrir að þakka en vil þó kannski fyrst og fremst nefna það að við erum tiltölulega lítið samfélag, við erum gagnsætt samfélag, við erum samfélag sem er vant upplýsingum og samtali. Við höfum líka borið gæfu til þess að tryggja að við byggjum ákvarðanir okkar á þekkingu. Ég held að það sé algert grundvallaratriði.

Svo vil ég einnig segja að árangur okkar getum við líka þakkað þeirri staðreynd að við erum að raðgreina og rekja hvert einasta smit sem upp kemur. Þetta hefur tekist í samstarfi opinberra aðila og Íslenskrar erfðagreiningar og það er einstakt. Það er einstakt samstarf sem hefur leitt til þess að við erum með augu færustu vísindamanna okkar á hverju einasta smiti, raðgreiningu þess, rakningu og síðan ákvörðunum um sóttkví og einangrun, sem við höfum beitt með mjög góðum árangri og í einstaklega góðu samstarfi við samfélagið. Meginreglan er sú að fólk hefur verið arm í arm og samstiga í þessum aðgerðum.