151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[16:19]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar maður er í stöðu til að hafa áhrif á líf fólks, í stöðu til að taka ákvarðanir sem breyta högum fólks og geta breytt lífi þess, þá má einfalda þá stöðu sem maður er í með því að tala um að maður taki sér annaðhvort stöðu í jáinu eða í neiinu. Ef maður tekur sér stöðu í jáinu þegar maður er að fara að taka slíkar ákvarðanir þá spyr maður sig: Hvers vegna ætti ég að segja nei? Maður er staddur í jáinu og reynir að finna einhverja ástæðu til að segja nei. Ef maður tekur sér stöðu í neiinu er maður búinn að ákveða að segja nei og maður spyr sig síðan: Hvers vegna ætti ég að segja já? Svo skoðar maður þær ástæður og vegur þær jafnvel og finnst þær léttvægar. Það finnst mér vera ákveðið grundvallaratriði sem má hafa í huga varðandi þessi mál vegna þess að mér finnst að í þessum málum taki kerfið sér stöðu í neiinu og haldi nokkuð fast í það. Ég sit, eins og kom fram áðan, í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og þar kemur til minna kasta að skoða og vinna þetta mál áfram. Í þeirri vinnu hyggst ég taka sérstakt mið af umsögnum aðila sem ég tel að hafi sérþekkingu á þessum málaflokki og þá horfi ég sérstaklega til Rauða krossins.

Þetta mál er komið til 1. umr. nokkuð skyndilega. Mér hefur ekki gefist ráðrúm til að búa mig verulega vel undir það. Engu að síður virðist mér við snöggan yfirlestur að hér sé kannski ekki um að ræða þær stóru grundvallarbreytingar á málinu sem kynnu að snúa mér til fylgis við það. Áfram erum við að horfa á færibandið sem öllu þykir varða að sé sem skilvirkast. Þegar ég tók þátt í umræðum um þetta mál síðast gerði ég mér það til dundurs að telja hversu oft orðið skilvirkni kæmi fyrir í þeim drögum og það var 17 sinnum. Ég gerði það aftur í morgun og aftur kom upp sama tala, 17 sinnum skilvirkni.

Skilvirkni getur verið ágæt og jafnvel nauðsynleg til að ljúka erindum og málum með farsælli niðurstöðu. Skilvirkni má samt ekki vera skálkaskjól. Hún má aldrei verða ópersónulegt stofnanaorð þar sem að baki býr skortur á mannúð og þar sem að baki býr neiið. Skilvirkni virkar best þegar hún fer saman við löngun til að segja já og vera í jáinu og þegar hún fer saman við mannúðina. Skilvirkni getur heldur aldrei verið markmið í sjálfu sér. Það er ekki hægt, þegar maður er beðinn um hjálp, að bera fyrir sig skilvirkni, geti maður ekki veitt þá hjálp. Skilvirkni getur aldrei verið ástæða í sjálfu sér til að segja nei.

Þetta orð, skilvirkni, kemur svo oft fyrir í greinargerð frumvarpsins og höfundarnir virðast svo hugfangnir af þessu orði að það hvarflar jafnvel að manni, eins og ég held að ég hafi líka nefnt síðast í umræðum um þetta mál, að þeir skilji þetta orð bókstaflegum skilningi. Þetta sé virkni til að skila, hugsunin sé sú að skila fólki aftur á sinn stað, sinn upprunastað. En sá staður er því miður ekki til, hann er ekki til lengur eða öllu heldur, þetta fólk er komið á sinn stað. Það er komið á griðastað eða ætti að vera það, stað þar sem það hefur möguleika á að byggja upp líf og tilveru.

Í því sambandi skulum við alltaf muna að hér er ekki um að ræða fólk sem gerir þetta upp á grín eða fólk gerir sér þetta til dundurs eða fólk sem fer gagngert þeirra erinda um heiminn að hafa það notalegt í þessari stöðu eins og stundum má skilja á sumum þeirra sem taka til máls um þessi mál, heldur er hér um að ræða raunverulegt fólk af holdi og blóði, raunveruleg örlög raunverulegs fólks. Og ekki bara það, heldur er líka um að ræða möguleika, vannýtta möguleika fólks til að gera eitthvað úr eigin lífi, til þess að gera eitthvað úr eigin hæfileikum, til þess líka að gagnast samfélögum sem það sækist eftir að verða hluti af. Auðvitað getur verið um alls konar fólk að ræða sem er á flótta. Við erum öll alls konar fólk, enginn er algóður og enginn er alvondur. Við erum samsafn af alls konar mannlegum eiginleikum og flóttafólk hefur ekki til að bera einhvern einn eiginleika, 60 milljónir manna hafa ekki til að bera einhvern einn eiginleika heldur er hér um að ræða mannkynið. Þetta er mannkynið sjálft, það er á flótta og sá flótti er rétt að hefjast.

Þróun loftslagsmála hefur verið með þeim hætti á undanförnum árum, og á eftir að verða með þeim hætti, að sífellt fleiri svæði heimsins verða óbyggileg, með þeim afleiðingum að fjölskyldur flosna upp þar sem þær búa og fólk flosnar upp af stöðum sínum og leggur á flótta vegna þess að ekki er lengur líft. Í kjölfarið fylgja stríð, stríð um vatn og önnur landsréttindi, stríð um jarðnæði, stríð um pláss og stríð manna sem iðka stríð sem markmið í sjálfu sér, studdir til þess af hernaðarvélum sem koma frá stórveldunum og bitna á venjulegu fólki sem leggur á flótta. Við höfum fengið smjörþefinn af því í Sýrlandi þar sem stríði var lýst yfir á hendur fjölskyldum og konum og börnum og gömlu fólki og fjölskyldufólki. Atvinnuhermenn réðust á þetta fólk með nýjustu hernaðartækni og -vísindum með þeim afleiðingum að það flosnaði upp og leitaði til Evrópu þar sem á móti því var tekið af mismikilli stórmennsku, mestri þó í Þýskalandi þar sem viðbrögð Angelu Merkel munu halda nafni hennar á lofti um langan aldur.

Virðulegi forseti. Við erum að tala hér um mannúð og skilvirkni og hvort mannúð á að vera reglan eða hvort mannúð á að vera undantekningin frá færibandsreglunni, hvort hið kalda færiband eigi að gilda en stundum sé þó möguleiki gefinn á því að sýna mannúð. Við þekkjum dæmi þess þegar það gerist að mannúðin hefur yfirhöndina. Það er þegar upp koma sögur fólks í fjölmiðlum. Það er þegar einhverjum velunnurum þessa fjölskyldufólks tekst að vekja athygli fjölmiðla og þar með almennings á aðstæðum fólks og það verður nær undantekningarlaust til þess að almenningur fær samúð með því. Almenningur fær samúð með hlutskipti þess vegna þess að almenningur sér sig í þessu fólki, vegna þess einfaldlega að þetta fólk er ekki atvinnumenn í flóttamennsku, heldur er þetta venjulegt fólk. Þetta fólk er almenningur. Það verður þá til þess að ráðamenn, ráðherrar, neyðast til þess, yfirleitt á elleftu stundu, að veita þessu fólki hæli af mannúðarástæðum, sem er jafnan lofsvert og ánægjulegt en engu að síður líka raunalegt vegna þess að það er undantekning. Mannúð sem undantekning.

Ég tel, herra forseti, að Ísland sé land með alveg gríðarleg tækifæri og ég tel að til þess að þau tækifæri verði að veruleika þurfi hér ótal vinnufúsar hendur og fólk með alls konar hæfileika og alls konar menntun og alls konar bakgrunn. Ég tel að það sé ekki nóg að við felum vinnumiðlunum eða slíkum aðilum eingöngu að útvega það vinnuafl. Mér finnst að það sé eðlilegra og náttúrulegra að slíkt vinnuafl komi upp úr samfélaginu og komi m.a. að utan, frá fólki sem sækist beinlínis eftir því að fá að búa hér og byggja upp líf sitt og tilveru. Ég held að slíkt fólk sé líklegra til að verða góðir og gegnir borgarar en aðvífandi vinnuafl sem starfar hér nokkra mánuði í senn og fer svo.

Umfram allt tel ég að mannúðin og réttlætið eigi aldrei að vera undantekning og mannúðin og réttlætið á ekki einu sinni að vera frátekið handa þeim sem eru góðar manneskjur. Það á líka að vera í boði fyrir fólk sem er kannski gallagripir. Mannúðin á ekki vera umbun fyrir góða hegðun og hún á aldrei að vera fjarverandi við afgreiðslu mála. Ég tel, herra forseti, að mannúðin eigi að vera grunnregla í samfélaginu og að við eigum sem samfélag að taka okkur ævinlega stöðu í jáinu.