151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[17:33]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmanni getur þótt það eitthvað athugunarvert að ég ræði einstaka aðila í samfélaginu, hvort sem það eru fjölmiðlar eða aðrir. Ég get almennt tekið undir að ekki sé heppilegt að stjórnmálamenn séu að hlutast til um beina hagsmuni tiltekinna fjölmiðla. Hins vegar hef ég tekið eftir því og er búinn að fá mig fullsaddan af því, virðulegi forseti, að það eru fjölmiðlar í nútímasamfélagi okkar sem bulla og þvaðra og þvæla og bera á torg margleiðréttar staðreyndavillur frá þeim sem reka fjölmiðlana sjálfa. Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að símatími Útvarps Sögu sé þar sökudólgurinn. Það er fólkið, sem ég ætla ekki að nafngreina, sem rekur stöðina og þylur síendurtekið upp þvætting og bull og margleiðréttar rangfærslur. Þegar ég heyri þær margítrekuðu rangfærslur, sem ýta margar hverjar undir útlendingaandúð og á meðal þeirra eru alls konar fáránlegan samsæriskenningar, þá ætla ég bara að tala um það. Ég ætla að tala um það hérna og ég ætla tala um það á netinu og ef ég fer einhvern tímann aftur í viðtal á Útvarpi Sögu þá ætla ég að tala um það þar. Hv. þingmaður verður bara að sætta sig við það, en svona ætla ég að hafa þetta. Mér er sama hvort það þykir við hæfi, ég er bara búinn að fá nóg af virðingarleysi sumra fjölmiðla gagnvart borðleggjandi staðreyndum og grundvallarrökhugsun. Ég hefði haldið að fjölmiðill myndi vilja halda í heiðri að athuga hvort það sem hann fréttir sé satt. Það er einn fjölmiðil sem sker sig úr af þeim sem ég veit um, alla vega á Íslandi, og það er sá sem við ræðum hér. Svona er þetta bara, virðulegi forseti. Ég átta mig á því að ræður mínar eru ekki fyrir alla. Ég skil það, en það verður að hafa það.