Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[15:13]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég vil bara taka undir mikilvægi þess að þingheimur fái að eiga orðastað við þá ráðherra sem sitja í ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins. Á heimasíðu Stjórnarráðsins segir um þá nefnd, með leyfi forseta:

„Þá er henni jafnframt ætlað að vera vettvangur samráðs og samræmingar við endurskoðun fjármálakerfisins í samræmi við þá áherslu í sáttmála ríkisstjórnar að breið sátt náist um endurskipulagningu fjármálakerfisins á Íslandi.“

Röð ráðherra sem eru tilgreindir þarna eru forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra, sem á væntanlega eftir að uppfæra. En þarna segir að þeir eigi fast sæti í nefndinni. Það er auðvitað sjálfsögð krafa þingmanna og ég bið hæstv. forseta að hlutast til um það að við þingmenn eigum möguleika á því að eiga beinan orðastað við þá þrjá ráðherra sem í nefndinni sitja utan þess forms sem við köllum óundirbúnar fyrirspurnir.