153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

aðgerðir stjórnvalda í húsnæðismálum.

[11:08]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það stendur að sjálfsögðu ekki á ríkisstjórninni að axla sína ábyrgð og m.a. getum við bara bent á það að í gegnum Covid-faraldurinn, það er nú að koma út úttekt á því, þá kemur í ljós að okkur tókst það sem er mjög mikilvægt, að verja mest lægstu tekjuhópana — langmest. Við fórum á síðastliðnu ári í það, vegna þess að verðbólgan var vaxandi, að hækka húsnæðisbætur um tæp 24%; fyrst um 10% í júní og svo aftur um 13,8%, ef ég man rétt, um áramótin og breikkuðum þann hóp sem nýtur þeirra bóta. Við fórum í að hækka vaxtabætur og viðmiðin þar þannig að þau nýtast bæði fleirum og meir þeim sem þann stuðning þurfa að fá.

Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni um að erfitt ástand er hér á markaðnum. Verðbólgan er há og illvíg og ég held að það sé engum blöðum um það að fletta að við þurfum öll að takast á við hana. Ég er ekki að kenna neinum um að það sé verðbólga. Það er stríð í Evrópu eins og við vorum að ræða hérna áðan, það geisar verðbólga um allan heim og óvissutímar. Væntingarnar á Íslandi um verðbólgu inn í framtíðina eru allt of háar. Eina leiðin til að snúa því við er að við tökum öll höndum saman, aðilar vinnumarkaðarins, ríkisstjórnin að sjálfsögðu, sem getur haft forgöngu um slíkt, Seðlabankinn og almenningur allur, ekki síst fyrirtækin í landinu sem ráða oft verði á vöru og þjónustu. Við erum síðan með hópa að störfum, m.a. um réttindi leigjenda þar sem m.a. er til skoðunar hvernig við getum tryggt enn frekar þeirra réttindi með einhvers konar útfærslu á því sem hv. þingmaður kallaði leigubremsu eða slíkt. (Forseti hringir.) Það er þar til skoðunar. Ég vænti þess að við fáum áfanganiðurstöður sem við getum komið með hingað inn í þing ef með þarf eins fljótt og þörf er. En við erum á vaktinni.