149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

kjaraviðræður.

[10:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þegar við horfum til baka, sex til tíu ár, dregst upp sú mynd að okkur sem samfélagi hefur tekist að láta ráðstöfunartekjur þeirra sem eru í neðstu tekjutíundunum vaxa hraðar en ráðstöfunartekjur þeirra sem eru í efstu tekjutíundunum. Þetta birtist okkur m.a. í alþjóðlegum mælingum um að á Íslandi er meiri jöfnuður en annars staðar.

Í þeim tillögum sem ríkisstjórnin er að kynna er ekki bara verið að tala um breytingar á tekjuskatti, sérstaka hækkun persónuafsláttar sem tók gildi um áramótin, heldur líka aukinn félagslegan stuðning, svo sem eins og lengingu fæðingarorlofs sem hefur lengi verið rætt um og vinnumarkaðurinn lagt mikla áherslu á. Við ræðum sömuleiðis um þá styrkingu sem nú er komin í gildi fyrir barnafjölskyldur.

Þetta verður auðvitað að skoða út frá einstaka dæmum. Hægt er að taka dæmi af einstaklingi með tvö börn, annað undir sjö ára, sem eykur ráðstöfunartekjur sínar á ári um tæplega 200.000 kr. vegna tillagna ríkisstjórnarinnar. Við getum eflaust átt langt samtal um það hér hvort það sé eitthvað sem skiptir máli, en ef hv. þingmaður vill fara einhverjar aðrar leiðir verður hann þá að benda á hvaða leiðir það eru. Það er ekki hægt að koma hér upp og halda því fram að við séum ekki að ná árangri og séum ekki með tillögur sem eru sérsniðnar fyrir þá sem eru neðst í tekjustiganum vegna þess að þannig eru tillögurnar.

Síðan eru eflaust margir, og mér heyrist hv. þingmaður skipa sér í þeirra hóp, sem telja að kennarar, sjúkraliðar, fólk sem starfar í kringum miðgildi launa í landinu, eigi ekkert gott skilið. Þetta sama fólk kemur alltaf upp þegar það fólk er í kjarabaráttu (Forseti hringir.) og krefst þess að samið verði um tuga prósenta launahækkanir, en ef þetta fólk á að fá svo lítið sem 0,5% lækkun á skattbyrði kemur þetta sama fólk og segir: Nei, þetta er ekki hópurinn sem ég er að berjast fyrir.