139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[23:13]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður segir að við séum að hverfa frá og segjum dómstólaleiðina ekki færa. Það er alrangt. Það hef ég aldrei sagt. Okkur í fjárlaganefnd var falið að fjalla um málið og meta það efnislega. Það er ákveðin áhætta í dómstólaleiðinni og það kemur fram í nefndaráliti okkar að þótt við teljum ekki verulega hættu á að málið mundi tapast gæti það gerst. Þegar hv. þingmaður segir að sama tölulega niðurstaða mundi koma út úr dómstólunum er það ekki rétt. Ef menn fara dómstólaleiðina og tapa málinu, eins og hv. þingmaður segir, með lágmarksinnstæðutrygginguna erum við að tala um miklu stærri tölur. Því miður. (Gripið fram í: Er það?) Já, það er þannig. (Gripið fram í: Nei.) Það felst í vaxtamuninum. Það kemur mjög skýrt fram í nefndaráliti okkar. (Gripið fram í.) Síðan geta menn sagt — (Gripið fram í.) Í okkar áliti, já. (Gripið fram í.) Það væri ágætt fyrir hv. þingmenn að lesa það. Það er ekki sjálfgefið hverjir vextirnir verða. Það á eftir að semja um þá við viðkomandi aðila. Menn ættu því að tala varlega í þessu máli.

Þegar hv. þingmaður segir að þetta sé hugsanlega einhver aðgöngumiði að Evrópusambandinu held ég að við getum a.m.k. verið sammála um það, við hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, að hún hafi ekki trú á því að ég muni leggja til að samningarnir verði samþykktir til að geta gengið í Evrópusambandið. Það var það sem mér fannst dálítið athyglisvert í málflutningi hennar. Ég kalla eftir frekari rökstuðningi við þá fullyrðingu.

Það kemur líka alveg skýrt fram og ég sagði það í ræðu minni í dag að þetta eru tveir slæmir kostir. Mitt mat er að þetta sé skynsamlegri leið. Ef hv. þingmaður hefur aðra skoðun virði ég hana. En hún á ekki að gera lítið úr skoðunum annarra og segja að menn (Forseti hringir.) snúist í hringi því að við höfum alla tíð talað fyrir því að leitað yrði (Gripið fram í.) eftir samningum í þessu máli.