143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[17:19]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Í umræðu um þingsályktunartillögu hefur maður takmarkaðan tíma. Maður fær að koma tvisvar sinnum í ræðustól, í annað skiptið 15 mínútur og nú 5 mínútur. Sjálfur er ég búinn að nota fyrri ræðutímann, en ég held að það væri gríðarlega mikilvægt, áður en við tæmum umræðutímann, að fá hæstv. utanríkisráðherra í umræðuna auk þess að við fengjum svör við því hvað bíður í framhaldi af afgreiðslu málsins í þingsal þegar málið fer til nefndar. Eigum við von á að það komi aftur til þingsins? Fáum við tækifæri til að ræða málið í nefndinni, kalla til gesti? Mun málið fá alla þá afgreiðslu sem venjuleg þingmál fá? Ég held að það sé afar mikilvægt til að standa við það sem hér hefur verið sagt af hæstv. ráðherra um að hér eigi að verða vönduð umræða um skýrsluna, þetta sé góður vettvangur til að efla umræðuna og eiga hreinskiptna og opna umræðu. Svo ég segi bara beint eftir hæstv. ráðherra, að hér eigi að vera opin hreinskiptin umræða og í samfélaginu.

(Forseti hringir.) Ég bið hæstv. forseta að reyna að svara þessu fyrir okkur þannig að við vitum út í hvað við erum að ganga hér á síðustu metrunum í þessari umræðu.