144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[18:46]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal viðurkenna að ég þekki ekki svo nákvæmlega fjárhagsstöðuna hjá sjóðnum. Hún hefur verið góð og þar hefur verið borð fyrir báru en ég er ekki frá því að það sé rétt að nú muni fara að hægja á eða jafnvel stöðvast frekari uppbygging þess kerfis ef ríkið skilar engu inn í púkkið.

Það sem ég hef eiginlega meiri áhyggjur af er að það fari að súrna í andrúmsloftinu í þessu samstarfi. Það voru aðilar vinnumarkaðarins sem höfðu frumkvæði að þessu, þeir lögðu af stað og þau fyrirtæki sem voru innan Samtaka atvinnulífsins tóku að greiða sjálf inn í byrjun, síðan var greiðsluskyldan lögð á alla og meiningin var að lífeyrissjóðir og ríkið kæmu inn saman og færu í áföngum upp í 0,13% af stofninum.

Niðurstaðan varð svo að lífeyrissjóðirnir voru teknir inn með lögum og ríkið átti að koma seinna. Nú er ríkið aftur og aftur að fresta því eða koma sér undan því að skila sínu inn í þetta. Ég held að það sé langhættulegast gagnvart lífeyrissjóðunum sem mjög tregir gengu til þessa samstarfs en á þeim grunni þó að þeir og ríkið væru að koma inn saman ásamt með atvinnulífinu til að byggja upp þennan sjóð. Mér býður svo í grun að þarna sé farið að súrna í ástandi.

Svo vil ég bæta inn í þetta með samskipti aðila. Ég gleymdi auðvitað þriðja aðilanum, þetta eru ekki bara vinnuveitendur og verkalýðshreyfing sem hér er verið að koma svona að, þarna eru líka sveitarfélögin. Hér eru hlutir sem varða sveitarfélögin mjög miklu og eru ávísun á aukin útgjöld hjá þeim sem ekkert samráð hefur verið haft við þau um, eins og stytting atvinnuleysisbótatímabilsins, brútalt um sex mánuði frá og með næstu áramótum. Það á að höggva mánuðina af þeim sem hafa á bilinu 30–36 mánuðir í atvinnuleysi, höggva þá af um áramótin. Engin aðlögun. Allur sá hópur færist þá á einu bretti yfir á sveitarfélögin, (Forseti hringir.) án nokkurs undirbúnings eða aðgerða til að skapa störf í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins eins og gert var þegar tímabilið var stytt úr fjórum árum í þrjú.