152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

stjórn fiskveiða.

22. mál
[16:15]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum framsöguna og fyrir að hafa lagt málið fram. Við ræddum þessi tengsl innan útgerðarinnar töluvert á síðasta kjörtímabili og það er augljóst að bæta þarf úr. Hv. þingmaður nefnir að hér sé hugmyndin að hrinda í framkvæmd tillögum verkefnastjórnar um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni, sem var skilað 2019 — ég hygg að það sé ekki eina sambærilega nefndin sem hv. þingmaður hefur setið í á vegum stjórnvalda, af því að þetta hefur gengið nefnd úr nefnd á síðustu árum. Mig langar að spyrja út í einn lið samstarfsyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar sem snýst um að skipa nefnd til að kortleggja áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum og meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnarkerfisins. Þarf mikið fleiri nefndir? Er ekki búið að skoða þetta frekar vel? Þarf ekki að taka pólitíska afstöðu hér í sal út frá þeim upplýsingum sem liggja fyrir? Ég held að ágreiningur á milli flokka sé nokkuð ljós. Fólk þekkir það úr verkefnastjórninni sem skilaði 2019 og öllum hinum nefndunum sem á árum áður skiluðu einhverju af sér eða leystust upp í botnlausu rifrildi út af átakalínum sem við þekkjum öll. Ég er að fiska eftir því hvað við græðum á enn einni nefndinni á vegum stjórnvalda.