Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

framhaldsfræðsla.

136. mál
[15:35]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um framhaldsfræðslu, nr. 27/2010. Í 1. mgr. 11. gr. laganna er kveðið á um að ráðherra skipi Fræðslusjóði níu manna stjórn til fjögurra ára í senn. Í ákvæðinu er nánar kveðið á um hvaða aðilar skuli tilnefna fulltrúa í stjórn sjóðsins en m.a. er kveðið á um að sá ráðherra er fer með málefni vinnumarkaðar skuli tilnefna einn fulltrúa. Auk þess er kveðið á um að formaður stjórnar sjóðsins skuli skipaður án tilnefningar.

Með forsetaúrskurði nr. 6/2022, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, fluttist málaflokkur framhaldsfræðslu og málefni Fræðslusjóðs til félags- og vinnumarkaðsráðuneytis frá þáverandi mennta- og menningarmálaráðuneyti. Eftir þær breytingar falla lög um framhaldsfræðslu undir málefnasvið félags- og vinnumarkaðsráðherra. Í ljósi framangreinds skipar félags- og vinnumarkaðsráðherra formann stjórnar Fræðslusjóðs og þykir því mikilvægt að breyta fyrrnefndri 1. mgr. 11. gr. laganna með þeim hætti að sá ráðherra sem fer með mál er varða fræðslumál skipi einn fulltrúa í stjórn Fræðslusjóðs í stað þess ráðherra sem fer með málefni vinnumarkaðar líkt og kveðið er á um í gildandi ákvæði. Með þessu er verið að tryggja þeim ráðherra sem fer með mál er varða fræðslumál samkvæmt fyrrnefndum úr forsetaúrskurði aðkomu að stjórn Fræðslusjóðs.

Virðulegur forseti. Líkt og komið hefur fram í máli mínu er hér um að ræða frumvarp sem tryggir þeim ráðherra sem áður fór með málefni Fræðslusjóðs áframhaldandi aðkomu að stjórn sjóðsins eftir þær breytingar sem urðu hvað varðar skipan málaflokksins með fyrrnefndum forsetaúrskurði. Er því ekki gert ráð fyrir breytingum frá gildandi lögum hvað varðar þá aðila sem eiga fulltrúa í stjórn fræðslusjóðs.

Að lokum legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar að lokinni þessari umræðu.