139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[12:38]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr):

Herra forseti. Mig langar að tæpa til viðbótar á nokkrum atriðum sem ég náði ekki að ræða í fyrri ræðu minni varðandi þetta merkilega mál sem virðist vera á leiðinni í gegnum þingið vegna stuðnings Sjálfstæðisflokksins við það.

Afstaða Sjálfstæðisflokksins kemur mér og mörgum öðrum á óvart því að sjálfstæðismenn hafa öðrum fremur talað mjög rökfast og skýrt gegn málinu alla tíð. Afstaða þeirra eins og hún birtist í dag er í rauninni óskiljanleg. Í nefndaráliti þeirra segir ekki hvers vegna þeir skiptu um skoðun, þeir vísa óljóst í eitthvert hugsanlegt andóf Breta og Hollendinga á alþjóðavettvangi gegn Íslandi, eitthvað sem alla tíð hefur verið vitað að gæti hugsanlega verið til staðar og er hugsanlega til staðar í öllum alþjóðasamskiptum ef menn eru ósáttir hver við annan.

Þetta snýst um meira en bara Icesave-samninginn hvað Sjálfstæðisflokkinn varðar. Þetta snýst um grundvallarafstöðu þeirra t.d. til skattamála sem þeir hafa ekki beint verið ragir við að gagnrýna undanfarin tvö ár, skattstefnu ríkisstjórnarinnar, því að Icesave-samkomulagið mun, eins og fram kemur í breytingartillögu meiri hluta fjárlaganefndar, kalla á tugmilljarða skuldaaukningu ríkisins. Það eru ekki peningar sem vaxa á trjánum. Það eru peningar sem verður að sækja í vasa almennings, annaðhvort með skattahækkunum eða þá niðurskurði á þjónustu, niðurskurði á heilbrigðismálum, velferðarmálum og menntamálum, sem eru stærstu útgjaldapóstarnir. Með því að samþykkja þennan samning samþykkja sjálfstæðismenn líka stórfelldar skattahækkanir, 26 milljarða kr. núna strax og annað eins áður en árið er liðið, þannig að sökin er þeirra þegar kemur að skattahækkunum.

Það sama á við um þá liðsmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem settu sig svo mjög upp á móti fjárlagafrumvarpinu fyrir áramót og munaði minnstu að ríkisstjórnin félli við andstöðu þeirra. Þeir voru á móti fjárlagafrumvarpinu vegna þess að gengið var of langt í niðurskurði og skattahækkunum. Með samþykki sínu nú kúvenda þeir algerlega í afstöðu sinni og skrifa aftur upp á stórfelldar skattahækkanir og stórfelldan niðurskurð þannig að það er ekki heil brú í afstöðu margra þingmanna til málsins nú í þriðja sinn sem það kemur fyrir þingið.

Eitt sem ekki hefur verið talað nægilega mikið um heldur er aðkoma Seðlabankans að málinu. Ég starfaði sjálfur í Seðlabankanum í um fimm ár og þekkti ágætlega til þar, þar var mjög margt hæft fólk að störfum. Það fólk hafði engu að síður allt saman rangt fyrir sér í aðdraganda hrunsins. Það heyrðist aldrei hljóð úr Seðlabankanum um að hér væri allt að fara á hliðina og þó var það sú stofnun sem hafði mestar upplýsingar um allt íslenska fjármálakerfið. Í hruninu og eftir það hefur Seðlabankinn, fyrst undir stjórn norsks seðlabankastjóra og nú undir stjórn Más Guðmundssonar, sent frá sér umsagnir um Icesave sem halda ekki sérlega vel vatni. Spár Seðlabankans um gengi krónunnar næstu fimm árin eru sérstaklega athyglisverðar í því samhengi því að Seðlabankinn spáir því að íslenska krónan verði með stöðugustu gjaldmiðlum í heimi næstu fimm árin. Það sér hver heilvita maður að slík spá er hlægileg.

Það er ekki gott við að eiga þegar stofnanir ríkisins sem eiga að skila af sér faglegum niðurstöðum hegða sér með þessum hætti. Kallað hefur verið eftir nýrri þjóðhagsstofnun. Vissulega er það mjög athyglisverð og góð hugmynd en ef hún verður að veruleika og verður rekin með sams konar fororði og aðrar stofnanir ríkisins, þ.e. á pólitískum nótum, er slíkt einfaldlega peningasóun og tímasóun. Sem betur fer höfum við aðgengi að sérfræðiþekkingu utan stjórnsýslunnar sem hægt er að byggja á eitthvert álit.

Varðandi það að Sjálfstæðisflokkurinn virðist hafa gengið til liðs við ríkisstjórnina lýsi ég enn eftir nýjum stjórnarsáttmála. Það er vitað mál að Sjálfstæðisflokkurinn gengur ekki til svona samstarfs nema fá eitthvað í staðinn. Sjálfstæðismenn ganga ekki til svona samstarfs og fórna þar með allri andstöðu sinni við stórfelldar skattahækkanir nema fá eitthvað í staðinn. Þeir ganga ekki til svona samstarfs og fórna öllum sínum prinsippum í Icesave, hver einasti þingmaður flokksins í tvígang við meðferð þingsins á málinu undanfarin tvö ár, án þess að fá eitthvað í staðinn. Ég lýsi því eftir þessum nýja stjórnarsáttmála því að hann og rökin fyrir kúvendingu þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem eiga sæti í fjárlaganefnd er ekki að finna í áliti 2. minni hluta fjárlaganefndar.

Það er athyglisvert að sá þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem talaði í morgun, hv. þm. Pétur H. Blöndal, talaði gagnrýnið um þennan samning en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd voru víðs fjarri, þeir hafa ekki sést hér í morgun. Hvað hangir á spýtunni? Ýmsu hefur verið velt upp í þeim málum en ég læt vera að tala um það hér. Það mun hins vegar koma í ljós, held ég, eins og svo oft áður, að gerðir hafa verið samningar á bak við tjöldin um einhvers konar gjald fyrir stuðning við þingmál. Það er ekkert nýtt, því miður, og þrátt fyrir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hefur ekkert breyst í þeim málum og það verður engin breyting á meðan núverandi Alþingi situr þannig að því fyrr sem almenningur fær að segja álit sitt á því þingi sem nú situr með almennum kosningum, því betra, að mínu mati

Einnig hefur mikið verið talað um hvað dómstólaleiðin gæti kostað, til hvers hún gæti leitt ef Ísland tapaði málinu eða það ynni málið. Ekki hefur unnist nægur tími til þess í fjárlaganefnd að fá nákvæma greiningu á því. Fjárlaganefnd virðist einhverra hluta vegna liggja mjög á í þessu máli og hefur aldrei, þrátt fyrir ítrekaðar spurningar, verið útskýrt af hverju svo er. Óskað hefur verið eftir áliti efnahags- og skattanefndar um ákveðin atriði varðandi það að fjármálafyrirtæki tækju að sér að greiða Icesave-reikninginn og eins hefur verið óskað eftir því við viðskiptanefnd að hún gefi álit sitt á því hvernig hægt væri að nota ný lög um innstæðutryggingarsjóð til að greiða niður Icesave-skuldbindinguna. Meiri hluti fjárlaganefndar mátti ekki vera að því að bíða eftir því og þegar leitað var álits á því var eina útskýringin sú að það væri málinu óviðkomandi og það væri alveg hægt að afgreiða það seinna. Það er náttúrlega grundvallaratriði í málinu hvort almennir skattborgarar á Íslandi eiga að greiða þessa skuld í gegnum stórhækkaða skatta og meiri niðurskurð í heilbrigðis-, velferðar- og menntamálum eða hvort fjármálafyrirtæki eiga að greiða þau af arði sínum. Það er grundvallaratriði í málinu. Að segja það málinu óviðkomandi er bara hlægilegt og algjör rökleysa.

Áður en ég lýk máli mínu langar mig að ítreka það úr því að hv. formaður fjárlaganefndar er í salnum að fjárlaganefnd klári málið ekki fyrr en fyrir liggur hvort og þá með hvaða hætti verður hægt að koma kostnaðinum yfir á aðra en almenna skattgreiðendur. Það hefur margoft komið fram að það liggur ekkert á með þetta mál. Það er að sjálfsögðu pólitískur vilji hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra að málið verði klárað sem fyrst og það er líka pólitískur vilji Sjálfstæðisflokksins á þessu stigi, það er af því að það er pólitískt óþægilegt fyrir þetta fólk. Fjárlaganefnd á ekki að láta einhvern óþægindakláða í hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. fjármálaráðherra stýra niðurstöðu nefndarinnar og hvenær málið er afgreitt.

Oft hefur komið fram, og það kom fram strax í upphafi hjá samninganefndinni, að ekkert liggur. Ég legg líka áherslu á að betur verði farið yfir til hvers dómstólaleiðin getur leitt. Færð hafa verið mjög sterk rök fyrir því að dómstólaleiðin og niðurstaða dómsmáls, hver sem hún yrði, yrðu óheppilegri fyrir Breta og Hollendinga en Íslendinga. Það er eitthvað sem ætti að sjálfsögðu að skoða betur í svona mikilvægu máli.

Svo lýsi ég því yfir að þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn sé genginn til liðs við ríkisstjórnina í þessu máli og það sé þá væntanlega mikill meiri hluti fyrir málinu á þingi (HöskÞ: Hækja ríkisstjórnarinnar.) — hækja ríkisstjórnarinnar, segir hv. þm. Höskuldur Þórhallsson — greiddi almenningur atkvæði gegn málinu með 98% atkvæða í fyrra. Það er algerlega fráleitt að ætlast til þess að almenningur fái ekki að segja aftur álit sitt á þessum samningi ef hann fer í gegnum þingið. Það hlýtur að vera eðlilegasta mál í heimi að í frumvarpið fari breytingartillaga um að málinu verði vísað til þjóðarinnar að lokinni meðferð Alþingis á því. Að keyra það ofan í þjóðina í þriðja sinn án þess að spyrja hana er bara frekja og yfirgangur og óréttlátt. Ég vona að þjóðin taki það ekki í mál ef ætlunin er að gera það.