Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

atkvæðagreiðsla um birtingu greinargerðar um Lindarhvol.

[14:44]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Forseti. Hæstv. forseti særir mig enn og aftur upp í pontu vegna þessa máls sem hefði verið hægt að leysa með einföldum hætti í apríl 2022 með því að birta greinargerðina eins og forsætisnefnd hafði samþykkt að gera. Ég get þó fagnað því að forseti tók jákvætt undir beiðni hv. þm. Jóhanns Páls Jóhannssonar um að það yrði a.m.k. atkvæðagreiðsla um það hvort forseti svaraði þeirri fyrirspurn sem hv. þingmaður hefur lagt fram. Hitt er svo, og það hef ég sagt áður í þessari pontu, að það er ekki hlutverk stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að aflétta trúnaði af greinargerðinni. Það liggur algerlega fyrir. Það er hlutverk forsætisnefndar. Hér í eina tíð voru öll erindi sem bárust hæstv. forseta lögð fram á lessal eins og það hét. Ég sé ekki að þetta erindi sé öðruvísi en þau erindi önnur, bréf eða hvað það er, sem berast hæstv. forseta. Þau berast okkur öllum og forseta ber að leggja það fram.