135. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2008.

kostnaður við gerð Héðinsfjarðarganga, Fáskrúðsfjarðarganga og ganga um Almannaskarð.

356. mál
[14:11]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef svo sem ekki miklu við mitt fyrra svar að bæta nema að ég hef heyrt þessar vangaveltur áður hjá hv. þingmanni. Það sem við verðum auðvitað að hafa í huga er að útboðið sem slíkt, tilboðin sem opnuð eru er verktakakostnaður. Við það bætast svo þeir liðir sem ég hef hér svarað hv. þingmanni um eins og hönnun, kostnaður við umhverfismat og fleira. En við verðum líka að hafa í huga að í útboðinu geta verið þættir sem eru utan við útboðið sem eru nauðsynlegir við jarðgangagerð.

Ef ég man rétt, t.d. varðandi nýjasta útboðið við Bolungarvíkurgöng þá hefur komið fram að ýmis útbúnaður sem þarf við þau göng, og hefur þá væntanlega verið í hinum göngunum líka, er ekki inni í útboðinu eða tilboði verktaka. Það eru hlutir sem Vegagerðin sem verkkaupi þarf að kaupa sjálf og leggja til.

Það kann að breyta einhverju um þær tölur sem hér er verið að tala um. Ég skal gera það, virðulegi forseti, að gefa hv. þingmanni afrit af hinu munnlega svari mínu sem hefði kannski verið betra að gera strax vegna þess að slíka talnarullu sem maður er að ryðja hér út úr sér hefði auðvitað verið betra að setja fram sem skriflegt svar.

Ég held hins vegar að það séu ýmsir aðrir þættir en þeir sem ég hef hér talið upp sem blandast inn í þetta, þættir sem ég var að gera hér að umtalsefni og auðvitað verðum við líka að hafa í huga hvernig við reiknum fram. Sem dæmi varðandi nýjasta útboð okkar, sem eru Bolungarvíkurgöng, þá fengum við þar tilboð frá lægstbjóðanda upp á 3.479 millj. kr., ef ég man rétt. Þar er um að ræða rúmlega 5,1 kílómetra, eina brú, tvo vegskála og töluverða vegarlagningu. Þetta er verktakakostnaður upp á 682 millj. kr. á kílómetra. Þannig að við sjáum nú hvað er að gerast.

En það jákvæða við þetta er það, virðulegi forseti, að við höfum verið að fá lægri tilboð en hafa verið áður og (Forseti hringir.) sennilega er þetta nýjasta útboð það lægsta sem við höfum fengið.