139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:15]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Eins og þetta mál ber sjálft með sér hefur ríkisstjórnin gert hrapalleg mistök í Icesave-deilunni í tvígang. Í greinargerð með þessu máli kemur fram allur samanburður milli þeirra samninga sem áður hafa legið fyrir þinginu og leiðir fram fyrir hvers konar afglöpum ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, hæstv. forsætisráðherra, er ábyrg. (Gripið fram í: Ég segi nei.) Nú liggur þessi samningur fyrir, fyrir okkur til að taka afstöðu til. (Gripið fram í: Þú segir …) Það er ekki létt verk. (Gripið fram í.) Það er mönnum ekki neitt gleðiefni að leiða erfiðan ágreining til lykta eftir allan þann tíma sem málið hefur verið í ágreiningi milli Breta, Hollendinga og Íslendinga.

Það er mitt mat eftir nákvæma skoðun á þeirri áhættu sem fylgir málinu og því hvað viðsemjendur okkar hafa lýst sig reiðubúna til að leggja af mörkum fyrir sitt leyti að það sé (Forseti hringir.) skynsamleg ákvörðun út frá hagsmunum íslensku þjóðarinnar að ljúka þessum ágreiningi með því samkomulagi sem hér liggur fyrir.