Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

atkvæðagreiðsla um birtingu greinargerðar um Lindarhvol.

[14:22]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Forseti vísar í réttaráhrif, einhvern réttarágreining eða eitthvað svoleiðis. Ég veit ekki hvaða rétt er verið að tala um. Við erum að tala um þingið, þingmenn, þjóðina, aðgengi að upplýsingum sem skilað er inn til þingsins og varða almannahag. Hvorki meira né minna en eignir ríkisins sem voru settar inn í eitthvert lokað félag til þess einhvern veginn að fela það hvernig var staðið að sölu þessara ríkiseigna. Það er einhvers konar stjarnfræðilegur útúrsnúningur að reyna að draga réttarkerfið inn í þetta. Við erum ekki að glíma við neitt réttarkerfi í þessu máli. Það er alveg fyrir utan það. Við þurfum ekkert að vera lögfræðingar til þess að vinna hér á þingi. Það er engin hæfniskrafa um það. Það er mjög erfitt fyrir okkur að vinna að því hvernig á að lesa lögin, fá skilning á lögunum, þegar við fáum ekki aðgang að lögfræðiáliti, þegar við fáum ekki einu sinni að biðja um lögfræðiálit. Meiri hlutinn segir: Nei, fyrirgefið, við viljum ekki sérfræðiálit um það hvort þetta standist stjórnarskrá eða ekki. Hvernig eigum við þá að vinna vinnuna okkar þegar við fáum ekki það álit?