Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

atkvæðagreiðsla um birtingu greinargerðar um Lindarhvol.

[14:25]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Fyrst varðandi lögfræðiálitið sem ekki má birta þá var það grundvöllur að ákvörðun forsætisnefndar í apríl á síðasta ári um að birta greinargerð setts ríkisendurskoðanda. Það var grundvöllur endanlegrar ákvörðunar forsætisnefndar um birtingu sem enn hefur ekki verið framkvæmd. Þetta plagg var hluti af ákvörðun sem heyrir beint undir stjórnsýslu Alþingis. Það að birta eitthvert skjal á vef Alþingis, hvað er það annað en stjórnsýsla Alþingis? Ég er ekki jafn flinkur í lögfræðilegum loftfimleikum eins og löglærðir kollegar mínir hér en ég sé ekki hvernig forseti getur notað eitthvert undanþáguákvæði upplýsingalaga til að halda þessum gögnum frá almenningi.

Hvað varðar fyrirspurn hv. þm. Jóhanns Páls Jóhannssonar, um það hvaða efnisatriði það séu í greinargerð setts ríkisendurskoðanda sem kalla á sérstaka athugun, (Forseti hringir.) þá ætti ekkert að þurfa svona fyrirspurn því sú greinargerð á að birtast. Ár er síðan forsætisnefnd samþykkti það, (Forseti hringir.) en meðan forseti dregur lappirnar þá er eðlilegt að svara sé leitað við spurningum.