150. löggjafarþing — 71. fundur,  12. mars 2020.

aðstoð við þá sem minnst mega sín.

[10:55]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Nú þegar Covid-19 veiran er að stefna í hæstu hæðir er verið að loka matarúthlutun Mæðrastyrksnefndar og óvíst hvenær Fjölskylduhjálp Íslands mun vera með úthlutun sína. Á þá úthlutun hefur fólkið í samfélagi okkar sem hefur það hvað verst treyst. Það er okkur til háborinnar skammar að fjöldi fólks þurfi að treysta á matvælaúthlutun frá nærri fyrsta degi mánaðar. Hvað á að gera fyrir þetta fólk og einnig fyrir þá sem eru svo veikir heima að þeir geta ekki farið í þá ömurlegu göngu að leita hjálpar í matarbiðröð? Hvert á veikt fólk, öryrkjar, eldri borgarar og láglaunafólk sem á engan mat og getur enga björg sér veitt að leita? Er eitthvert símanúmer fyrir það? Er eitthvert netfang fyrir það? Við vitum það að ekki fyrir svo löngu í eðlilegu ástandi var eldri borgari útskrifaður af sjúkrahúsi og hann sendur heim til sín og það eina sem var til í ísskápnum var maltflaska og lýsisflaska. Er það núna þannig að einhver verður heima og það verður ekki einu sinni til maltflaska eða lýsisflaska í ísskápnum? Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera? Hvernig ætlar hann að bregðast við?

Síðan væri líka gaman að fá að vita, af því að nú hafa verið gerðir nýir samningar fyrir lægst launaða fólkið, 112.000 kr. hækkun: Fer hún til eldri borgara og öryrkja á sama tíma eða verða notaðar brellur eins og alltaf hefur verið gert, einhverjar vísitölubrellur til að sjá til þess að fólk fái hana ekki? Það kom skýrt fram í þeirri tölu sem ég fékk um skerðingar að af hverjum þremur krónum sem varið er til öryrkja og eldri borgara eru tvær teknar til baka í skerðingu ári seinna. Svo kemur ríkisstjórnin og hælir sér af því að hafa hækkað um þrjár krónur en hún hækkaði bara um eina krónu og hún hækkaði ekki einu sinni um verðtrygginguna. Á að breyta þessu?