150. löggjafarþing — 71. fundur,  12. mars 2020.

siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu.

634. mál
[11:36]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Eins og hæstv. forseta er kunnugt um á ég ekki að fara í andsvör við þingmann eða ráðherra úr sama flokki. Ég kem því hingað upp til að hnykkja á örfáum atriðum. Í fyrsta lagi fagna ég framlagningu tillögunnar sérstaklega. Hér er mjög mikilvægt skref stigið og hefur í raun ekki verið gert áður fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu á þennan hátt og er það afar mikilvægt. Ég var svo lánsamur að fá að taka þátt í vinnustofunni í október sl. og svo aftur á heilbrigðisþingi rúmum mánuði síðar eða svo, þar sem mjög mikið var talað á þessum nótum. Það er mjög ánægjuleg að sjá hvernig ráðuneyti hæstv. heilbrigðisráðherra hefur tekið þær hugmyndir og þá vinnu sem þar fór fram og búið til þetta plagg.

Ég ætla ekki að tíunda það neitt frekar að öðru leyti en því að ég ímynda mér að í kaflanum Hugsað til framtíðar mætti bæta við einum lið þar sem verið er að tala um siðferðilegu gildin, að jafnhliða því að taka þau inn í fræðslu og umræðu inni á stofnunum sé afar mikilvægt að við finnum leiðir til að þátta þetta í æ ríkari mæli inn í menntun heilbrigðisstétta og tryggja heilbrigðisstéttunum að þegar þær komi á vettvang sé búið að nesta þær með þeim tækjum sem þær þurfa til að geta tekið þátt í slíkri umræðu og byggt á vinnu sína innan kerfisins.