150. löggjafarþing — 71. fundur,  12. mars 2020.

viðbrögð við yfirvofandi efnahagsvanda.

[10:37]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Nú er það svo að ríkisstjórnin mun koma til fundar í hádeginu og við munum í kjölfarið eiga fund með formönnum flokka stjórnarandstöðu einmitt til að fara yfir þessa stöðu. Á morgun munum við eiga fund með aðilum vinnumarkaðarins sömuleiðis til að fara yfir stöðuna. Ætlunin var að hafa þann fund í dag en vegna tíðinda næturinnar þá ákváðum við að fresta honum til morguns.

Það er ljóst að við stöndum frammi fyrir þrengingum. Þær verða tímabundnar. Ríkisstjórnin mun gera það sem þarf til þess að við getum komið standandi niður úr þessum hremmingum. Þjóðarbúið stendur vel. Staðan er allt önnur en 2008 þegar við stóðum frammi fyrir þeim þrengingum sem við lentum í þá. Við erum með öflugan gjaldeyrisvaraforða, lágt skuldahlutfall, jákvæðan viðskiptajöfnuð, miklu minni skuldsetningu heimila og atvinnulífs. Staðan er góð og ríkisstjórnin kynnti fyrstu aðgerðir núna í vikunni til þess að styðja við fyrirtækin í landinu og það skiptir að sjálfsögðu máli fyrir fólkið í landinu því að fyrirtækin í landinu eru ekkert annað en fólkið sem þar vinnur.

Þessi ríkisstjórn hefur svo sannarlega ekki veikt jöfnunartækin heldur hafa aðgerðir okkar verið að skila auknum jöfnuði, hvort sem litið er til skattkerfisbreytinga, stóraukningu fjármuna inn í heilbrigðiskerfið, sem skiptir svo sannarlega máli núna þegar þessi faraldur geisar, það hefur verið dregið úr kostnaði sjúklinga í heilbrigðiskerfinu sömuleiðis, en við sjáum nú að ýmis ríki standa frammi fyrir því að það er nánast ókleifur þröskuldur til þess að takast á við faraldurinn. Þessi ríkisstjórn hefur svo sannarlega verið að styrkja velferðarkerfið og grunnstoðir þess, en staðan er þannig að við munum þurfa á þeim að halda.

Þær aðgerðir sem við kynntum á þriðjudag voru eingöngu þær fyrstu. Við munum þurfa frekari aðgerðir í vinnumarkaðsmálum, félagslegum stöðugleika (Forseti hringir.) og að sjálfsögðu í fjárfestingu til að tryggja það að við komum standandi niður og það munum við gera.