150. löggjafarþing — 71. fundur,  12. mars 2020.

aðstoð við þá sem minnst mega sín.

[10:57]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir fyrirspurnina og segja, líkt og forsætisráðherra kom inn á í svari sínu áðan við annarri fyrirspurn, að þetta er eitt af þeim verkefnum sem við erum með núna á borðinu ásamt fjöldamörgum öðrum sem lúta að þeim áhrifum sem Covid-19 mun hafa á íslenskt samfélag, þ.e. hvernig við bregðumst við. Það er komið í ákveðinn farveg og ég vonast til að við getum gefið út mjög fljótt einhverjar upplýsingar um það. Það sama á við um aðrar aðgerðir sem við erum að vinna að innan ráðuneytisins, t.d. varðandi vinnumarkaðsúrræði o.fl. Við munum fá frumvarp inn í þingið, vonandi í lok þessarar viku, um laun í sóttkví. Það eru aðgerðir til að mynda gagnvart atvinnuleysi þeirra sem þurfa atvinnuúrræði í samstarfi við Vinnumálastofnun. Við erum að reyna að vinna allt þetta eins hratt og mögulegt er. Við treystum auðvitað á gott samstarf við þingið og velferðarnefnd ef til þurfa að koma einhverjar lagabreytingar eða mál hingað inn í þingið.

Eins og ég segi, þetta er eitt af þeim málum sem við erum að vinna að núna. Við vitum um mikilvægi þeirrar starfsemi sem er hjá Mæðrastyrksnefnd, Rauða krossinum og fleiri aðilum. Ég þakka þingmanninum fyrir þessa brýningu og leita eftir samstarfi og stuðningi við hann og flokk hans, velferðarnefnd og þingið allt í því sem fram undan er.