150. löggjafarþing — 71. fundur,  12. mars 2020.

siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu.

634. mál
[11:32]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu. Nauðsynlegt er að stefnumótun fyrir heilbrigðiskerfið hvíli á traustum siðferðilegum grunni og ríkja þarf sátt um þau gildi sem eiga að veita leiðsögn til að ná settum markmiðum.

Eins og þingheimi er kunnugt var samþykkt á síðasta löggjafarþingi heilbrigðisstefna til ársins 2030. Til þess að ná meginmarkmiðum stefnunnar, sem er að almenningur á Íslandi búi við örugga og hagkvæma heilbrigðisþjónustu þar sem aðgengi allra landsmanna sé tryggt, er einsýnt að forgangsraða þarf fjármunum og öðrum björgum til heilbrigðisþjónustunnar.

Samhliða samþykkt heilbrigðisstefnu var tekin ákvörðun um að til að hrinda stefnunni í framkvæmd yrðu gerðar áætlanir um aðgerðir til fimm ára í senn. Slíkar áætlanir yrðu uppfærðar árlega meðan heilbrigðisstefnan er í gildi.

Með samþykkt heilbrigðisstefnu til 2030 ákvað Alþingi eftirfarandi markmið: „Almenn sátt ríki um þær siðferðilegu meginreglur sem liggi til grundvallar forgangsröðun og ákvörðunum í heilbrigðiskerfinu og stöðug umræða verði um siðferðileg leiðarljós.“ Í kjölfar samþykktar á heilbrigðisstefnu var ákveðið samkvæmt fimm ára aðgerðaáætlun að ná þessu markmiði innan þriggja ára.

Sú tillaga til þingsályktunar sem hér er mælt fyrir er liður í því að ná þessu markmiði. Hún er enn fremur liður í því að skapa umræðu um siðferðisleg gildi þegar kemur að forgangsröðun.

Með þeim siðferðilegu gildum sem lagt er til að Alþingi álykti um að höfð skuli að leiðarljósi í íslenskri heilbrigðisþjónustu er stefnt að því að sátt ríki um samræmda og gagnsæja forgangsröðun. Gildin eru í fyrsta lagi mannhelgi, í öðru lagi þörf og samstaða og í þriðja lagi hagkvæmni og skilvirkni. — Virðulegi forseti. Það er ekki tilviljun að ég nefni gildin í þessari röð því að þau eru nefnd hér í röð eftir mikilvægi.

Mannhelgi felur í sér mikilvæg siðferðisverðmæti og er grundvallargildi sem gengur framar öðrum gildum. Það er þannig til grundvallar fyrir önnur gildi sem eftir koma. Margt felst í mannhelgi en með henni er átt við rými sem sérhver manneskja á óskoraðan rétt yfir og felur í sér áherslu á virðingu fyrir mannlegri reisn hvers og eins við allar mögulegar aðstæður. Enn fremur felst í hugtakinu að allir menn séu jafnir og eigi sama rétt til verndar lífs og viðhalds heilbrigðis og að viðurkennd og almenn réttindi séu virt. Er þannig vísað til þeirra hagsmuna sem eru forsenda grunnréttinda einstaklinga, réttinda sem eru manninum hve helgust. Gildið felur í sér að aðgangur að heilbrigðisþjónustu og önnur vernd lífs og viðhald heilbrigðis skuli teljast grundvallarréttur einstaklinga með þeim takmörkunum sem heilbrigðisþjónustunni eru óhjákvæmilega settar.

Næst í röðinni er gildið þörf og samstaða, en almenn sátt ríkir um að þeir sem eru í brýnastri þörf fyrir heilbrigðisþjónustu á hverjum tíma skuli ganga fyrir og að mikilvægt sé að gæta að rétti þeirra sem eru í viðkvæmri stöðu, sama af hvaða ástæðum það er, og geta mögulega ekki sjálfir leitað réttar síns eða varið hann.

Að endingu er það gildið hagkvæmni og skilvirkni sem skal hafa að leiðarljósi við forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni. Það er réttlætismál allra í samfélaginu að heilbrigðisþjónustan sé markviss, árangursrík og eins hagkvæm og kostur er. Í þessu ljósi er mikilvægt að heilbrigðisstofnanir vinni að stöðugum umbótum og verði í fremstu röð við innleiðingu nýrrar og gagnrýndrar tækni. Við þurfum að nýta frekar þá tækni sem er til staðar, t.d. fjarheilbrigðisþjónustu og aðrar rafrænar lausnir, og horfa ætíð til nýrrar tækni. Fyrrnefnd gildi er mikilvægt að leggja til grundvallar á öllum stigum ákvarðanatöku í heilbrigðiskerfinu.

Þegar hugað er að framtíðinni er brýnt að heilbrigðisstofnanir tryggi að starfsfólk fái fræðslu og tíma til að tileinka sér þessi siðferðilegu gildi sem ég hef farið yfir. Enn fremur er nauðsynlegt að skipulögð umræða fari fram um gildin og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu á öllum heilbrigðisstofnunum landsins sem og hjá stjórnvöldum.

Að lokum er lagt til að heilbrigðisráðherra verði með samþykkt þingsályktunartillögunnar falið að skipa starfshóp sem undirbýr stofnun þverfaglegrar og ráðgefandi siðanefndar um forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu. Nefnd þessi verði ráðgefandi og gæti m.a. gefið út leiðbeinandi álit um forgangsröðun í samræmi við þessa þingsályktunartillögu.

Virðulegur forseti. Ég hef gert grein fyrir þeim grunngildum sem talið er að komi samfélaginu sem best við forgangsröðun í íslenskri heilbrigðisþjónustu, grunngildum sem byggjast á umræðum og samráði sem fór fram á heilbrigðisþingi sem haldið var í nóvember 2019 og á vinnustofu sem haldin var í október sama ár. Tillaga sú sem hér er til umfjöllunar byggist því á víðtæku samtali og breiðri samstöðu um grunninn sem leggja skal við forgangsröðun og ákvarðanatöku á öllum stigum heilbrigðisþjónustu.

Virðulegur forseti. Ég geri ráð fyrir að tillögunni verði að aflokinni fyrri umræðu vísað til hv. velferðarnefndar.