Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

almannatryggingar.

78. mál
[17:30]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég flyt hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum (frítekjumark vegna lífeyristekna). Fyrsti flutningsmaður þessa frumvarps er Inga Sæland og flyt ég það hér fyrir hana og auk mín eru á þessu frumvarpi Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson.

„Við 1. mgr. 23. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá skal ellilífeyrisþegi hafa 1.200.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna lífeyristekna.“

Það er 1. gr., með leyfi forseta, en 2. gr. hljóðar svo: „Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2023.“ Sennilega myndu þau öðlast gildi þegar þau næðu í gegn, ef þau verða samþykkt.

Frumvarp þetta var lagt fram á 149., 150., 151. og 152. löggjafarþingi (36. mál) en hlaut ekki afgreiðslu. Það er nú lagt fram að nýju. Fjórar umsagnir bárust um frumvarpið á 152. löggjafarþingi, frá Öryrkjabandalagi Íslands, Landssamtökunum Þroskahjálp, Landssamtökum lífeyrissjóða og Landssambandi eldri borgara. Umsagnaraðilar studdu allir markmið frumvarpsins.

Almennt frítekjumark er mjög lágt í sögulegu samhengi og er markmið þessa frumvarps að auka sanngirni í almannatryggingakerfinu og hvetja til sparnaðar lífeyrisþega með því að draga úr skerðingum. Með lögum nr. 116/2016, um breytingar á lögum um almannatryggingar og fleiri lögum, var meðal annars gerð sú breyting á ellilífeyriskerfi almannatrygginga að öll sértæk frítekjumörk vegna einstakra tegunda tekna voru afnumin. Þess í stað var lögfest eitt almennt frítekjumark sem nemur 25.000 kr. á mánuði og gildir um allar tekjur ellilífeyrisþega, óháð tegund þeirra. Með lögum nr. 96/2017 var einnig lögfest sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna, sbr. nú 4. málsl. 1. mgr. 23. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar.

Samkvæmt upplýsingum í svari félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn á 149. löggjafarþingi (þskj. 1313, 605. mál) nema heildarskerðingar til ellilífeyrisþega vegna lífeyrissjóðstekna 37,556 milljörðum kr. árlega. Eldri borgarar hafa sjálfir sparað fyrir lífeyrissjóðshlutdeild sinni. Lífeyristekjur eru því ekki launagreiðslur sem koma frá vinnuveitendum að starfsaldri loknum. Því felst í skerðingu bótagreiðslna á grundvelli lífeyristekna óbein skerðing á þeim hagsmunum sem eldri borgarar hafa unnið sér inn með vinnu sinni í gegnum tíðina. Það mun, samkvæmt upplýsingum frá félags- og barnamálaráðherra í fyrrnefndu svari, aðeins kosta ríkissjóð rétt rúma 16 milljarða kr. í aukin útgjöld árlega ef frítekjumark lífeyristekna verður hækkað upp í 100.000 kr. á mánuði. Það er eðlilegt að almenningur njóti eigin sparnaðar og það er skref í rétta átt að koma á 1.200.000 kr. sérstöku frítekjumarki vegna lífeyristekna.

Í eftirfarandi töflu má sjá hvaða áhrif framangreindar leiðir hefðu á árlegan kostnað ríkissjóðs við almannatryggingakerfið ef eingöngu er miðað við ellilífeyrisþega. Leið a sýnir árlegan kostnað ríkissjóðs ef hætt yrði við allar skerðingar á ellilífeyri, leið b ef hætt yrði öllum skerðingum almannatrygginga vegna lífeyrissjóðstekna ellilífeyrisþega og leið c ef ellilífeyrisþegar væru með 1.200.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna lífeyrissjóðstekna. Allar tölur eru í milljónum króna.

Það verður að segja alveg eins og er að það er eiginlega stórfurðulegt að það skuli bara vera 25.000 kr. frítekjumark á lífeyrisgreiðslurnar. Það er í sjálfu sér ekki eingöngu sett á lífeyrisgreiðslurnar heldur getur virkað öðruvísi, en við erum að fara fram á að þetta verði hækkað í 100.000 kr.

Það merkilegasta við allar svona greiðslur eins og þær eru settar upp, sem voru á sínum tíma 25.000 kr., er að þær hafa ekkert hækkað síðan þær voru settar á. Ef við uppreiknum þetta bara samkvæmt launavísitölu fram til dagsins í dag, þá ætti þessi tala nú þegar að vera komin yfir 40.000 kr.

Það er í sjálfu sér stórfurðulegt, ef við tökum dæmi, að þegar viðkomandi ellilífeyrisþegi hættir vinnu — þetta er mjög einfalt dæmi — ef hann er með 400.000 kr. í mánaðarlaun þegar hann hættir vinnu, þá fær hann í flestum tilfellum í dag 56% af þeim tekjum úr lífeyrissjóði. Þá erum við að tala um 212.000 kr. Það skýtur svolítið skökku við að nákvæmlega strax er byrjað að skerða eftir 25.000 kr. frítekjumark. Fyrst er skattað, 37%, og síðan er 45% skerðing ofan á það. Við erum að tala um nær 80% skatta og skerðingar, ofan á lögþvingaðan eignaupptökuvarinn lífeyrissparnað. Það hlýtur í sjálfu sér að vera einhvers konar heimsmet í fjárhagslegu ofbeldi og heimsku að leggja svona mikið á.

Ég sé fyrir mér eitt augnablik, ef við tökum fjármagnstekjuskatt sem dæmi — einstaklingur er kannski að fá milljarða í tekjuskatt og það er sagt við hann: Heyrðu, ríkið ætlar að taka af þér skatta og skerðingar af fjármagnstekjunum upp í 80%. Þú mátt halda eftir 200 milljónum en við ætlum að taka 800 milljónir af þér. Ég efast ekki um að það myndi þykja algjörlega fáránlegt og fráleitt að haga sér svoleiðis. En það þykir bara sjálfsagt hjá ríkisstjórn eftir ríkisstjórn, alveg sama hverjir hafa verið við völd af þessum fjórflokki sem hefur ráðið ríkjum undanfarna áratugi, allir gera nákvæmlega það sama. Allir segja fyrir kosningar: Drögum úr skerðingum, minnkum skerðingarnar, reynum að hjálpa fólki, við ætlum að taka þetta allt til endurskoðunar. En loforðin gufa upp um leið og komið er inn í þennan sal. Þá fer allt í sama farið og meira að segja eru skerðingarnar og álögurnar auknar á þetta fólk.

Við höfum orðið vitni að því aftur og aftur hvernig þeir fara að með hækkun almannatryggingalífeyrisins, þeir hækka hann samkvæmt vísitölu en ekki samkvæmt launaþróun. Það hefur valdið kjaragliðnun upp á yfir 100.000 kr. Síðan passa þeir sig á að hækka aldrei þessi frítekjumörk. Við erum t.d. með frítekjumörk á atvinnutekjur sem ættu að vera komin vel yfir 300.000 kr., en þeir af góðmennsku sinni hækkuðu það nýlega í 200.000. Þeir tóku samt ekki fram að þeir væru ekki að hækka miðað við launavísitölu þannig að þetta skili sér að fullu til baka til viðkomandi aðila, að þeir séu að fá þessi frítekjumörk sem upphaflega voru sett á til að hjálpa á þeim tíma. Með því að hunsa það að hækka þetta og setja þetta alltaf í fasta krónutölu, þá eru þeir að auka skerðingar.

Þeir gerðu nú enn þá betur þegar þeir í góðmennsku sinni, sem var að vísu mjög gott mál, hækkuðu þá sem urðu fyrir búsetuskerðingum og hífðu þá upp í að þeir fengju lægstu gildi ellilífeyris. Ég fagnaði því, en þá var það bara fyrsta stigið. Síðan datt þeim í hug að taka 10% af því; það var nú ekki hægt að hafa þetta þannig að þeir væru að skríða yfir fátækt heldur settu þeir þá bara niður í sárafátækt og tóku 10% af. Það dugði þeim ekki heldur til svo þeir skelltu líka krónu á móti krónu skerðingu á þessa einstaklinga.

Þetta sýnir bara einskæran vilja ríkisstjórnarinnar til að beita þessu ótrúlega fjárhagslega ofbeldi gagnvart þeim sem geta ekki varið sig. Við erum að tala um þá einstaklinga sem byggðu upp þetta land. Við gleymum líka oft í þessari umræðu því sem er eiginlega óskiljanlegt, hverjum þetta bitnar langmest á. Hverjir verða fyrir mestu skerðingunum í þessu samhengi? Jú, stærstur hluti er konur. Það er vegna þess að þær eru með mun lægri lífeyrissjóðsgreiðslur en karlar. Þar af leiðandi eru mun færri konur sem komast upp fyrir skerðingarmörk Tryggingastofnunar og þurfa þar af leiðandi ekki að hlíta þeim reglum sem þar eru inni. Almannatryggingakerfið var upphaflega byggt upp af góðri hugsjón og góðum ásetningi en einhvern veginn í meðförum tókst þeim að snúa þessu gjörsamlega við og gera það að algjöru refsikerfi. Það er eins og aðalatriðið sé hvernig hægt er að refsa fólki, skerða og plata, þannig að það verði ekki einu sinni vart við það þegar verið er að koma inn skerðingum í það sem viðkomandi er að gera.

Það er með ólíkindum að við séum núna í 10,2% verðbólgu og eitt af því sem ríkisstjórnin gæti gert sem myndi ekki — takið eftir því — auka verðbólgu, er einmitt að tryggja að þetta 100.000 kr. frítekjumark verði sett á. Það myndi skila þeim verst settu einstaklingum, sérstaklega konum, því að þurfa ekki að lenda í skerðingum vegna lífeyrissjóðsins — ætli það séu ekki um 60, 70, 80.000 kr. lífeyrissjóðsgreiðslur sem þar eru undir? Það myndi dekka það og sjá til þess að fólk stæði mun betur að vígi í dag. Við megum ekki heldur gleyma því að í Covid fengu allir hjálp nema eldri borgarar, það var eini hópurinn sem sat gjörsamlega eftir og fékk ekki krónu. Við reyndum að berja eingreiðslu í gegnum ríkisstjórnina, en það kom ekki til greina. Það var ekki sett króna í að aðstoða eldri borgara þessa lands, fólkið sem byggði upp þjóðfélagið, fólk sem var lokað inni á heimili sínu og þurfti að fara í stórkostnað til að fá mat sendan heim, gat ekkert farið og átti í hættu að smitast. En þetta fannst ríkisstjórninni bara allt í lagi, þetta væru þau breiðu bök sem gætu tekið á sig allt og þar af leiðandi þyrftu þau á engri hjálp að halda.

Því miður verð ég að segja alveg eins og er, að ég hef enga trú á því að ríkisstjórnin samþykki þetta frumvarp. Ég vona heitt og innilega að hún komi mér algerlega á óvart og samþykki þetta. Það væri gleðiefni, ekki bara fyrir mig heldur sérstaklega fyrir þá þarna úti sem þurfa virkilega á þessu að halda og eiga það sannarlega skilið; að þeir sem eru með mjög lágar greiðslur úr lífeyrissjóð þurfi ekki að lenda í sköttum og skerðingum upp á 80% af þeirri hungurlús sem þeir hafa fengið og verða hreinlega bara fyrir eignaupptöku.