Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

barnalög.

79. mál
[17:52]
Horfa

Flm. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Forsjá barns er eitt af meginatriðum barnaréttar en á henni byggjast lagatengsl barns við foreldra sína eða aðra þá sem fara með forsjána. Í þessu frumvarpi sem ég er að leggja hér fram, ásamt hv. þingmönnum Loga Einarssyni, Oddnýju G. Harðardóttur, Valgerði Árnadóttur, Gísla Rafni Ólafssyni, Steinunni Þóru Árnadóttur og Halldóru Mogensen, erum við að leggja til talsverðar breytingar. Forsjá barns snýst fyrst og fremst um ábyrgð, skyldur og réttarstöðu foreldra. Sá réttur felur annars vegar í sér rétt foreldra til að taka ákvarðanir um uppeldi barns og hins vegar rétt barns til að njóta forsjár foreldra sinna. Sá sem fer með forsjá barns, hvort sem um er að ræða foreldri eða annan sem fer með forsjána, hefur því víðtækar skyldur gagnvart barninu. Hlutverk foreldra er í mörgum tilfellum fest í lög og hér má einkum benda á 28. gr. barnalaga.

Þetta mál var fyrst flutt af Ólafi Þór Gunnarssyni, þáverandi þingmanni Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, og hefur verið uppfært með tilliti til umsagna sem við það bárust og samhliða þessu máli hef ég lagt fram þingsályktunartillögu um skipun starfshóps um rétt til að annast veikt eða slasað barn, 96. mál. Þar er félags- og vinnumarkaðsráðherra falið að koma á fót starfshópi til að kanna hvernig foreldrum barna verði gert kleift að rækja þessa skyldu með samkomulagi milli aðila vinnumarkaðarins eða með setningu reglna á þeim vettvangi. Verði þetta frumvarp að lögum er sérstaklega kveðið á um að í forsjárskyldu felist að veikt eða slasað barn eigi rétt á umönnun foreldra sinna eða forráðafólks og hljóðar 1. gr. frumvarpsins svo, með leyfi forseta:

„Við 2. mgr. 28. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Veikt eða slasað barn skal eiga rétt á umönnun foreldra.“

Við þetta breytist þessi umrædda 2. mgr. og verður í heild svohljóðandi:

„Foreldrum ber að annast barn sitt og sýna því umhyggju og virðingu og gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum svo sem best hentar hag barns og þörfum. Veikt eða slasað barn skal eiga rétt á umönnun foreldra.“

Á undanförnum árum hefur umræðan um rétt og réttindi barna farið vaxandi. Þær breytingar á barnalögum sem ég mæli hér fyrir í dag varða grundvallarréttindi barna. Breytingarnar byggja á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, barnasáttmálanum, sem Ísland skrifaði undir árið 1990 og öðlaðist lagagildi með lögum nr. 19/2013. Það er ljóst að hlutverk foreldra og forráðafólks verður seint upptalið til hlítar í lögum en við sem stöndum að þessu máli teljum mikilvægt að kveða sérstaklega á um rétt barns til að njóta umönnunar foreldra eða forráðamanna þegar það er veikt eða slasað, sér í lagi og þrátt fyrir að þessi réttur sé þegar fyrir hendi að ákveðnu leyti í flestum kjarasamningum á íslenskum vinnumarkaði. Núverandi réttindi eru réttindi foreldra og forsjárfólks. Frumvarp þetta færir því börnunum sjálfum þau sjálfsögðu grundvallarréttindi að foreldrar þeirra og forsjárfólk geti annast um þau þegar svo ber við. Með því að mæla fyrir um þennan sjálfstæða rétt barnsins er gert ráð fyrir að búið verði svo um hnútana á vinnumarkaði að rétturinn verði virtur þannig að hverju og einu barni verði tryggður þessi réttur.

Núverandi fyrirkomulag gerir ráð fyrir því að umsjónaraðili barns sem hefur á forræði sínu fleiri en eitt barn verður að deila réttindum sínum milli barna sinna. Einbirni sem slasast eða veikist og á tvo foreldra á vinnumarkaði er því í betri stöðu og gæti átt rétt á 20–30 dögum með foreldrum sínum. Veikt eða slasað barn úr systkinahópi sem kannski er barn einstæðs foreldris gæti þurft að deila dögunum og því aðeins notið fáeinna daga ef aðstæður haga því þannig að systkini viðkomandi hafi einnig orðið veik. Munurinn á réttindum barna getur því verið umtalsverður og á sama hátt geta möguleikar foreldris á að sinna börnum verið mjög mismunandi. Réttindin eru því ekki aðeins réttur foreldra á launuðu leyfi úr vinnu til að annast veikt barn heldur fremur réttur barnsins til að njóta þeirrar umönnunar sem það þarfnast.

Þingsályktunartillagan sem málinu fylgir er gert að vinna svör við þessu í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Þetta er gert í ljósi þess að skyldur og réttindi á vinnumarkaði eru aðallega skilgreind í kjarasamningum og því talið rétt að aðilar semji um þau sín á milli. Þar sem um er að ræða tvenns konar réttindi, annars vegar rétt veiks eða slasaðs barns til umönnunar foreldra og hins vegar rétt starfsmanns til að annast veikt eða slasað barn þykir rétt að fara þessa leið. Áréttað skal hér í lokin mikilvægi þess að sem best samræmi sé á milli þessara réttinda.

Virðulegi forseti. Ég trúi því að þetta mál sé mikilvæg varða á þeirri vegferð að tryggja íslenskum börnum aukin réttindi.