Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

skipun starfshóps um umönnun og geymslu líka.

85. mál
[18:50]
Horfa

Flm. (Jódís Skúladóttir) (Vg):

Frú forseti. Þessi þingsályktunartillaga snýr að því að fela dómsmálaráðherra að skipa starfshóp sem hafi það verkefni að gera úttekt á aðstöðu til umönnunar og geymslu líka, aðgengi að líkhúsum eða viðeigandi húsnæði, regluverki þar að lútandi og mögulegum úrbótum á núverandi lagaumhverfi vegna þessa.

Þetta mál er nú flutt öðru sinni en það var líka lagt fram á 152. löggjafarþingi af þeirri sem hér stendur ásamt hv. þingmönnum Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur og Líneik Önnu Sævarsdóttur.

Í greinargerð segir m.a. að tryggja beri aðgengi að umönnun látinna og geymslu en sú sjálfsagða þjónusta er ekki til staðar alls staðar á landsbyggðinni. Ég tel þetta vera hluta af sjálfsagðri þjónustu sem aðstandendur látinna reiða sig á. Það er ekkert eitt ferli sem tekur við þegar einstaklingur er úrskurðaður látinn, hvernig sem og hvar sem slíkt ber að. Það sem er mikilvægt er að aðstæður eru mismunandi og mismunandi aðgengi að þjónustu til að annast um lík. Starfsemi þessi verður að vera tryggð í ljósi þess augljósa, að við eigum öll eftir að deyja. Staðan er einfaldlega sú, frú forseti, að það er mikið misræmi í því hvernig á málum er haldið við þessar aðstæður eftir því hvar við búum á landinu og það er auðvitað óboðlegt. Ekkert er okkur erfiðara en að missa okkar nánustu og það sem aðstandendur þurfa að geta treyst á og geta upplifað í þeim aðstæðum er virðing og skilningur og traust á því að meðferð á líki hins látna sé fylgt eftir af kostgæfni og að við sitjum öll við sama borð. Eins og hér kom fram þá munum við að sjálfsögðu öll deyja á einhverjum tímapunkti og það hvar við erum frá dánarstundu og þar til kemur að útför skiptir máli.. Það skiptir máli fyrir aðstandendur að það sé borin virðing fyrir þessum tíma, fyrir þessari upplifun, fyrir líðan aðstandenda. Sú sem hér stendur upplifði það á nýliðnu ári að missa bæði barn í móðurkviði en einnig stjúpa sinn og það sem stendur upp úr í slíkum aðstæðum, sem alltaf eru gríðarlega sárar, taka alltaf mikið á alla fjölskyldu, vini og heilu samfélögin þegar einhver fellur frá, er auðvitað það traust sem við leitum eftir. Við leitum til kirkjunnar, við leitum inn í heilbrigðiskerfið, við eigum að eiga aðgang að þjónustu. Það er vissulega alls staðar þannig, sama hvar við búum, held ég, að fólkið stendur vaktina. Allir gera sitt besta. Allir vilja gera þessa erfiðu upplifun einstaklinga að missa sína nánustu eins auðvelda og halda eins fallega utan um það og mögulegt er. En til þess verða auðvitað að vera ákveðnar forsendur, það verða að vera til staðar aðstæður til þess að vel megi halda utan um hlutina. Ég nefni þetta sérstaklega af því að víða á landsbyggðinni er staðan einfaldlega sú að það eru ekki til líkhús og það er víðast þannig. Sums staðar hefur verið komið upp einhverri aðstöðu sem er ófullnægjandi en hefur bara verið látin viðgangast.

Nú held ég að það sé algjörlega tímabært að við leggjumst á árarnar um að koma þessu í lag. Það er bara þannig að á þessum stundum, þegar við erum að skilja við okkar nánustu, þá getum við ekki sætt okkur við það að búseta okkar verði til þess að það sé gríðarlegur mismunur á aðstæðum. Það er kaldranalegt að segja það en við þekkjum það mörg sem búum á landsbyggðinni að þegar einstaklingur fellur frá, og það getur verið við alls konar aðstæður og það er jafnvel kallað eftir því að krufning fari fram, þá þarf að flytja líkið með tilheyrandi óþægindum og kostnaði fyrir aðstandendur landshorna á milli. Við þekkjum það auðvitað sem höfum horfst í augu við þessa aðstöðu áratugum saman að það er auðvitað óboðlegt að lík séu flutt á flutningabílum innan um kartöflupoka og vörubíladekk. En þetta er raunveruleikinn. Auðvitað reynum við alltaf að gera betur og margt er betra í dag en var fyrir einhverjum árum síðan. En það er einfaldlega þannig að við getum ekki sætt okkur við það að við sitjum ekki öll við sama borð eftir búsetu, að við getum ekki tryggt það að okkar nánustu sem falla frá fái sómasamlega umönnun og borin sé virðing fyrir því þangað til að útför kemur.

Ég ætla að segja að lokum að við þurfum að tryggja geymslu á landsbyggðinni. Það er mikilvægt í því ljósi að skýra nánar núverandi lagaumhverfi svo að fólk um allt land geti gengið að því sem vísum hlut, að ástvinir þeirrar hljóti viðeigandi þjónustu í andlátinu. Ég vonast til þess að þetta mál nái framgöngu. Þetta er einfalt. Við erum bara að fara fram á það að starfshópur kortleggi stöðuna, að við getum horfst í augu við raunveruleikann. Sums staðar standa málin ágætlega, annars staðar standa þau verr, en við verðum að fá þá yfirsýn til þess að við getum tryggt þessa sjálfsögðu þjónustu og virðingu fyrir látnum einstaklingum með einhverjum sóma.