133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[12:47]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er í sjálfu sér ekki erfitt að sameinast um þau meginmarkmið í stórum dráttum sem birtast í þessari langtímaáætlun. Ég hygg að þingheimur allur geti í sjálfu sér gert það. Eitt er þó að hafa góð markmið og annað er síðan að gera þau að veruleika. Ríkisstjórnin hafði eflaust líka mjög góð markmið þegar hún lagði fram síðustu samgönguáætlun hér og Alþingi samþykkti hana. En það er ekki hægt að líta fram hjá því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft 16 ár til að vinna að þessum málum og ég geri alveg ráð fyrir því að samgönguráðherrum, bæði þeim sem nú situr og hinum fyrri, hafi gengið gott til og gjarnan viljað byggja upp samgöngur í landinu. En eins og alltaf er þegar menn hafa setið lengi ágerist andvaraleysið og sofandahátturinn með hverju tímabili sem líður. Það eru ekki ásetningssyndirnar sem eru verstar, heldur vanrækslusyndirnar og þær eru orðnar ansi miklar í þessum samgöngumálum.

Auðvitað hafa samgöngumálin, sérstaklega á síðasta kjörtímabili, liðið fyrir þær miklu framkvæmdir sem hér hafa verið bæði í virkjana- og stóriðjumálum. Þess er skemmst að minnast að á síðasta ári rankaði allt í einu ríkisstjórnin við sér og taldi nauðsynlegt að ráðast í einhverjar mótvægisaðgerðir eða slá á þensluna. Hvað gerði hún? Skar niður vegaframkvæmdir á Norðausturlandi og Vestfjörðum þar sem hagvöxtur hefur verið neikvæður um langt árabil, á sama tímabili og hann hefur verið líklega yfir 40% á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta eru vanrækslusyndirnar, virðulegi forseti, sem menn geta ekki komist fram hjá þó að þeir eflaust vilji vel og setji fram mjög jákvæð og ágæt markmið sem við getum sjálfsagt flest hver sameinast um.