139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[01:02]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir kjarnyrtar og efnismiklar spurningar. Ég hefði ekki getað orðað þær betur. Ég hef vissulega áhyggjur eins og hann af því hvenær greiðslur berast úr þrotabúi Landsbankans. Það er einn af stóru áhættuþáttunum í þessu máli.

Vandamálið er kannski líka að við erum komin í efnahagslega gildru, ekki bara varðandi efnahagslegu fyrirvarana og gjaldeyrishöftin heldur líka þá staðreynd að skilanefndin þarf að ná sem bestum hagnaði út úr þeim eignum sem eru í þrotabúinu og tíminn vinnur með þeim að því leytinu til en á móti tikka háir vextir út af Icesave-samningunum. Við munum því aldrei koma til með að sjá þann ávinning jafnvel þó að einstaka eignir hækki í verði. Það er líka áhyggjuefni að hvati virðist hafa myndast fyrir þá aðila sem sitja í skilanefndunum að draga málið svolítið á langinn sem er ekki gott fyrir íslenskan almenning og íslenska þjóð.

Ég vil fagna því sérstaklega hversu vel er mætt á bekki Alþingis og að hér skuli vera afar góðmennt. Ég hvet þá sem eru að fylgjast með útsendingu í sjónvarpinu að kynna sér þau rök sem eru færð fram. Það verður mjög athyglisvert að heyra í hv. þm. Birgi Ármannssyni sem mér skilst að sé næstur á mælendaskrá. Hann getur væntanlega útskýrt stefnu Sjálfstæðisflokksins og af hverju svo virðist (Forseti hringir.) sem hluti þingflokksins hafi hana í reynd.