140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

39. mál
[17:54]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni kærlega fyrir ræðu hans. Við skulum ekki gleyma því hver hans aðkoma var að þessu máli. Hann fór yfir það í ræðu sinni að hann var settur út úr ríkisstjórninni vegna skoðana sinna og meira að segja Evrópusambandið fagnaði því.

Mig langar að spyrja þingmanninn spurningar því að hann hefur mikla reynslu úr stjórnkerfinu og veit nokk hvernig Evrópusambandið vinnur vegna reynslu sinnar í ráðuneytinu: Hver ræður för með þessa umsókn? Er það embættismannakerfi ESB eða eru það Íslendingar og hæstv. utanríkisráðherra? Þetta er mjög einföld spurning.

Þingmaðurinn fór einnig yfir það í máli sínu að þeir styrkir sem við þurfum að taka á móti, IPA-styrkirnir, eru himinháar upphæðir, rúmlega 5 milljarðar íslenskra króna. Hvað finnst þingmanninum um að þeir sem koma erlendis frá til að eyða þessum styrkjum í hin ýmsu verkefni verði algerlega skattlausir í íslensku samfélagi og þurfi ekki að borga nein opinber gjöld? Ef Íslendingur og Evrópubúi vinna hlið við hlið við að breyta kannski einhverju kerfi hjá Hagstofunni borgar annar skatta en hinn ekki. Eins er það með innflytjendur tæknibúnaðar, íslenski aðilinn þarf að borga af því aðflutningsgjöld og tolla en sá sem kemur með búnaðinn með sér frá Evrópusambandinu þarf ekki að gera það. Hvernig lítur þingmaðurinn á þessa mismunun? Má ekki segja sem svo að það sé í hæsta máta undarlegt að Evrópusambandið skuli sjálft setja sér slíkar elítureglur í ljósi þess að innan EES-svæðisins eigi að vera frjálst flæði og allur (Forseti hringir.) ójöfnuður bannaður?