139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[00:57]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir ábendinguna. Ég get svarað honum því að þetta mál var algerlega vanreifað í fjárlaganefnd og mér þótti það miður.

Málið hófst þannig að Morgunblaðið birti fregnir af því að Landsbankinn gæti væntanlega ekki staðið undir afborgunum af því skuldabréfi sem fór á milli nýja og gamla Landsbankans. Það vill svo til að um er að ræða eina stærstu eign í þrotabúinu og afdrif þeirrar eignar hefur veruleg áhrif á hverjar heimtur verða úr búinu. Því var svarað til að þetta væri bull og þvaður í Morgunblaðinu og því vísað til föðurhúsanna, en síðan kemur frétt daginn eftir sem staðfestir að sent hafi verið bréf frá skilanefnd gamla Landsbankans þar sem þeir lýstu yfir verulegum áhyggjum af þessu máli. Ég sá í kvöld á netmiðlum landsins að blaðamaður Morgunblaðsins velti upp þeirri spurningu hvort við værum að horfa upp á sama vandamál og var fyrir hrun, þ.e. að forsvarsmenn bankanna væru ekki reiðubúnir að horfast í augu við þann vanda sem við væri að glíma.

Þá ber að hafa í huga að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra kom fram í fjárlaganefnd þar sem hann fullyrti að eiginfjárstaða stóru bankanna væri slæm.

Þetta eru að sjálfsögðu atriði sem við hefðum átt að skoða ofan í kjölinn í nefndinni. Maður veltir því fyrir sér hvort meiri hlutinn hafi í ljósi þessara upplýsinga ákveðið að keyra málið í gegn vegna þess að þeir óttuðust að ef þetta yrði kannað nánar gæti það orðið verulega (Forseti hringir.) erfitt mál.