153. löggjafarþing — 72. fundur,  6. mars 2023.

aðgerðir stjórnvalda gegn verðbólgu.

[15:18]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Vextir hafa hækkað núna ellefu sinnum í röð og líklegt að þeir hækki í tólfta sinn núna í mars með óheyrilegum og óbærilegum afleiðingum fyrir heimilin og þau fyrirtæki landsins sem eru innan krónuhagkerfisins en eins og við vitum eru mörg fyrirtæki sem eru fyrir utan það. Við erum búin að sjá og ítrekað er bent á að það eru nokkrar þjóðir í þessu landi.

Síðan hef ég átt hér orðastað bæði við forsætisráðherra og fjármálaráðherra þar sem ákveðin afneitun á þessu ástandi er í gangi. Um leið erum við líka að sjá ítrekaðar ábendingar helstu hagfræðinga landsins og hagsmunasamtaka í þá veru að ríkisstjórnin hafi ekki sýnt nægilegt aðhald á síðustu misserum og árum, sérstaklega ekki núna í þessu góðæri.

Núna segir hæstv. innviðaráðherra í viðtali: Það er þörf á samstilltu átaki, við þurfum að losna við þennan vonda vítahring. Það er rétt að seðlabankastjóri er svolítið skilinn eftir með sitt eina tæki sem er stýrivaxtatækið. Vinnumarkaðurinn hefur reynt að gera sitt og er núna innan ramma sem hefur verið mótaður þannig að þeir aðilar á markaði sem eiga að sjá svolítið um ábyrgðina á því að halda verðbólgunni í skefjum eru að reyna að gera sitt.

En eftir stendur ríkisstjórnin. Og við erum ítrekað búin að spyrja ríkisstjórnina hvaða aðgerðir hún ætli að koma með til að stemma stigu við verðbólgunni. Hvaða aðgerðir ætlar hún að draga fram núna t.d. til að lækka tolla og vörugjöld á vörur, til að lækka matarkörfuna? Hvað á að gera til að koma böndum á verðbólguna til þess að Seðlabankinn þurfi ekki enn og aftur að beita sínu stýrivaxtatæki, því eina sem hann hefur? Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í þessu?

Afneitunin hefur verið gríðarleg af hálfu ráðherra en mér fannst glitta í ákveðna vonarglætu þegar hæstv. innviðaráðherra kom og sagði: Við þurfum að rjúfa þennan vonda vítahring. Já, við erum í enn einum vítahringnum (Forseti hringir.) sem er alltaf spilaður aftur og aftur hér í íslensku samfélagi og við þurfum að rjúfa hann. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að berjast gegn verðbólgunni (Forseti hringir.) og koma heimilunum hér í samfélaginu til bjargar?