153. löggjafarþing — 72. fundur,  6. mars 2023.

aðgerðir stjórnvalda gegn verðbólgu.

[15:20]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er rétt að geta þess að ríkisstjórnin er auðvitað ekki aðgerðalaus og við höfum verið að vinna að fjölmörgum hlutum. Ég er á þeirri skoðun og var í þessu viðtali, sem hv. þingmaður var að vísa til, að benda á hið augljósa. Við þurfum að rjúfa þann vítahring sem við virðumst vera að stefna inn í, sem við þekkjum úr sögunni, þar sem eru víxlverkanir, hækkanir á launum og verðlagi sem ganga í takt og allir þurfa að sækja sér mótvægisaðgerðir vegna hærra verðlags með einhverjum hætti, annars munum við enda á þessum vonda stað. Ég vil líka segja að það sem við í innviðaráðuneytinu höfum til að mynda verið að gera á undanförnum misserum er eitt af því sem ég held að megi segja að sé eitt það mikilvægasta, ekki kannski til þess að bregðast við til skamms tíma en til lengri tíma, en það er að koma fram með húsnæðisstefnu, með áætlanir um uppbyggingu þar sem hið opinbera tekur virkan þátt í því að jafna stöðuna og búa til jafnvægi á húsnæðismarkaðnum þannig að hann einn og sér verði ekki þessi hvati til að dýpka kreppurnar og að blása síðan í nýja upprisu í mikilli skyndingu þar sem fjöldi fólks kemst ekki út á húsnæðismarkaðinn vegna þess að það er ekkert byggt. Ég held að þetta sé eitt af stóru verkefnunum sem við erum að gera. Til skamms tíma getum við auðvitað ekki komið með mótvægisaðgerðir gagnvart öllu því sem Seðlabankinn er að slá á. Hérna var t.d. einn af leiðtogum stjórnarandstöðunnar í fyrra andsvari að kalla eftir miklum fjármunum inn í heilbrigðiskerfið í næstu fjármálaáætlun. Við bættum svo sannarlega bæði í fjárauka, einum 18 milljörðum, og 12 í fjárlögunum inn í heilbrigðiskerfið. Við verðum öll að vera tilbúin að sníða okkur stakk eftir vexti (Forseti hringir.) ef við ætlum að rjúfa þennan vítahring, búa til einhvers konar samkomulag og það var það sem ég var að tala um. Ríkisstjórnin mun ekki sitja aðgerðalaus við það.