153. löggjafarþing — 72. fundur,  6. mars 2023.

skaðaminnkandi úrræði og afglæpavæðing neysluskammta.

[15:40]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Oft er sagt að við eigum ekki að fjalla um einstaka mál en það eru oft einstök mál sem benda okkur á gallana í kerfinu. Nýlega greindu frá einstöku máli Gunnþór Sigurþórsson og móðir hans, Ásta Þórhalla Þórhallsdóttir, sem varðar heilbrigðisráðherra og hann hafði svarað blaðamanni í löngu símtali eins og greint er frá á dv.is. Þar er fjallað um stöðu Gunnþórs þar sem þau eru að eigin sögn á barmi örvæntingar. Þar er greint frá samskiptum við heilbrigðisyfirvöld og hvort hægt sé að gera eitthvað eða ekki. Það reynist víst makalaust erfitt að fá svör og allir vísa hver á annan. Vísað er á neyslurými sem er síðan alls ekki það sama og skaðaminnkandi meðferð lyfja sem fjallað er um í þessari grein, þar sem viðkomandi aðili hefur verið morfínfíkill í tvo áratugi — gríðarlega erfitt mál. Í greininni er vitnað í það, með leyfi forseta, að „einn þrautreyndur starfsmaður í málefnum fólks með fíknisjúkdóma sagði að enn væri mikið um fordóma innan kerfisins, þótt enginn vildi viðurkenna slíkt. Viðkomandi aftók með öllu að koma fram undir nafni.“

Þarna er ákveðin hræðsla í gangi og það eina sem við höfum til að yfirstíga hræðslu og fordóma er fræðsla, sem er rýmið þar á móti. Þarna er vitnað í heilbrigðisráðherra, með leyfi forseta: „Margt gott/jákvætt getur gerst á stuttum tíma þegar kemur að skaðaminnkandi úrræðum.“

Í síðasta þætti Storms sáum við einmitt skaðaminnkunarúrræði og í raun afglæpavæðingu neysluskammta í verki í sóttkví. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Getum við ekki strax farið að stíga dálítið stór skref í þessu? Þurfum við í alvörunni að bíða (Forseti hringir.) eftir því að fólk jafni sig á fordómum og hræðslu í kerfinu áður en við þorum að stíga þessi skref eins og er lýst í þessari frétt, því að vandinn er svo sannarlega gríðarlegur.