145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

sólarhringsmeðferð í öndunarvél á heimili sjúklinga.

31. mál
[16:57]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Ég kem hérna upp eins og áðan, til þess að fagna þessari tillögu. Ég er meðflutningsmaður og er mjög stoltur af því vegna þess að ég tel, eins og hefur komið fram í máli hv. þingmanna hér, að þetta sé mannréttindamál. Þetta er réttlætismál sem ætti að fá að ganga í gegnum þingið mjög fljótt.

Ég segi mannréttindamál vegna þess að í 76. gr. stjórnarskrárinnar stendur skýrum orðum að enginn eigi að líða fyrir sjúkleika sinn. Eins erum við aðilar að mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem segir í 25. gr., með leyfi forseta:

„Allir eiga rétt á lífskjörum sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan þeirra sjálfra og fjölskyldu þeirra. Telst þar til fæði, klæði, húsnæði, læknishjálp og nauðsynleg félagsleg þjónusta, svo og réttur til öryggis vegna atvinnuleysis, veikinda, fötlunar, fyrirvinnumissis, elli eða annars sem skorti veldur og menn geta ekki við gert.“

Þetta getur nú ekki verið skýrara.

Það er því alveg með ólíkindum að við skulum ekki vera löngu búin að koma þessum málum í viðunandi horf. Eins og fram kemur í greinargerðinni er áratugareynsla af þessum málum í Danmörku. En ég hef lúmskan grun um að þetta snúist alltaf um peninga, krónur og aura, hér á Íslandi.

Þá kem ég líka að þeirri spurningu sem ég hef oft velt fyrir mér: Hvers konar samfélag viljum við hafa á Íslandi? Hvernig samfélag viljum við vera? Viljum við vera samfélag sem hlúir að öllum sínum þegnum, eins og stendur í stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum, eða viljum við skilja suma út undan, óhreinu börnin hennar Evu?

Ég velti því oft fyrir mér vegna þess að það er ekki bara varðandi þetta bráðnauðsynlega mál sem við ræðum hér, heldur fatlaðir og öryrkjar líka. Við höfum margoft farið yfir aðstæður þeirra á Íslandi og þeir hafa staðið í áratugalangri baráttu við að ná réttindum sínum og geta lifað hér mannsæmandi lífi eins og allir aðrir.

Það er ekki eins og það séu margir sem um ræðir. Þetta eru 10–15 einstaklingar á ári og vissulega kostar það pening. En við eigum ekki að vera að velta því fyrir okkur hvað það kostar. Við eigum bara að fullnægja þörfum þessa fólks til þess að gefa því kost á að því að lifa í samfélaginu með okkur. Það er bara svo einfalt. Það getur vel verið að það sé óábyrgt af mér að segja það en ég meina það. Það er mín staðfasta trú að við eigum að láta einskis ófreistað við að uppfylla þessi skilyrði og mannréttindasáttmála og stjórnarskrárbundinn rétt til þess að allir geti lifað hér mannsæmandi lífi. Við ræddum um eldri borgara áðan. Það er alveg sama með þá.

Þetta helst allt í hendur, en talið berst alltaf að aurum og krónum, að þetta sé svo dýrt. Og af því að þetta er svo dýrt látum við þetta fólk sitja á hakanum, sem er náttúrlega alveg ömurlegt ástand og ekki til eftirbreytni fyrir okkur sem þjóð.

Eins og ég kom inn á áðan í ræðu minni um eldri borgara er forkastanlegt að við getum ekki sinnt fólki sem á því þarf að halda. Ég get nefnt NPA-aðstoðina, liðveisluna, sem hefur sýnt það og sannað að hún er stórkostlegt framfaraskref fyrir fólk sem á henni þarf að halda og gerir því kleift að lifa sjálfstæðu lífi, vinna og leigja húsnæði og er virkir þátttakendur í samfélaginu í staðinn fyrir að vera bundið inni á sambýlum, sem vissulega eru góð fyrir suma, það er staðreynd. Sumir þurfa á því að halda en ekki allir. Við eigum ekki að velta því fyrir okkur.

Ég hefur tekið eftir togstreitunni á milli sveitarfélaga, verkefnastjórnar og annarra sem að þessum málum koma. Þar er alveg ótrúleg togstreita og alltaf er verið að tala um peninga. Við eigum ekki að velta því fyrir okkur. Við eigum að forgangsraða í þágu þessa fólks. Við eigum að forgangsraða í þágu heilbrigðis og þess fólks sem þarf á þessari aðstoð að halda. Þar á meðal þess fólks sem þarf á sólarhringsmeðferð í öndunarvél að halda.

Þess vegna er ég mjög stoltur af því að vera flutningsmaður að þessari þingsályktunartillögu. Eins og kom fram í máli hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur, sem er fyrsti flutningsmaður málsins, er engin pólitísk deila um málið. Ég held að það ætti að geta farið í gegn án vandkvæða og það gerist vonandi. Ég trúi því að það verði samþykkt núna á vorþingi.