145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

dagur helgaður fræðslu um mannréttindi barna.

26. mál
[17:40]
Horfa

Elín Hirst (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, þetta er mál sem kallast þingmannamál, en á hinu háa Alþingi virðist svo vera að flestöll mál, eða yfir 90% og jafnvel meira, sem hér fara í gegn séu ríkisstjórnarmál. Það er því afskaplega ólíklegt að mál eins og þetta, mál sem þingmaður leggur fram, eða mál sem ég mun tala hér fyrir á eftir, nái fram að ganga. Ég tel að það sé ljóður á starfinu hér í hinu háa Alþingi og vil koma því á framfæri.

Hvað varðar mannréttindi barna, eins og hv. þm. Páll Valur Björnsson vék að, þá er það ekki bara mikilvægt fyrir börnin heldur líka fyrir foreldrana og fyrir allt samfélagið að vita að við höfum skrifað undir barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem börnum eru tryggð ákveðin réttindi varðandi líf sitt og lífsgæði. Það er afar mikilvægt fyrir börnin að vita af þessu sjálf, að þau hafi þennan rétt. Þetta fellur til dæmis einkar vel að stefnu míns flokks, Sjálfstæðisflokksins, þar sem við erum að berjast fyrir frelsi einstaklingsins. Það er einmitt það sem við erum að gera með þessu máli að veita þessum einstaklingum, sem eru ungir að árum, vitneskju um að þeir hafi sinn persónulega rétt og geti gert eitthvað ef á þeim er brotið og leitað hjálpar.