Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 73. fundur,  6. mars 2023.

Sundabraut og samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

768. mál
[18:19]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég hef ávallt verið áhugamaður um gerð Sundabrautar en Sundabrautin núna sem er í umræðu er allt önnur Sundabraut heldur en var t.d. til umræðu í samgöngunefnd á síðustu öld, 1999–2003, sem ég sat í þá. Þá var verið að fjalla um þrjár mögulegar leiðir varðandi vegstæði. Nú er það gjörbreytt. Það sem ég vil spyrja hæstv. ráðherra um er hvort hann sjái fram á enn frekari breytingar á vegstæðinu af því að það virðist ekki vera alveg á hreinu í dag hvar það eigi að liggja. Hefur verið tekið tillit til skipulags þegar brúin kemur og þessar tengingar og skoðað hvaða áhrif þetta mun hafa á skipulag viðkomandi svæðis og þá um leið líka umhverfið? Um leið vil ég hvetja ráðherra til að halda áfram með þetta verkefni og huga einmitt sérstaklega að því að þetta verði leið sem þurfi að greiða fyrir. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir að við þurfum veggjöld á þessari leið bara til að ná í fjármagn til að kosta m.a. (Forseti hringir.) þessa umfangsmiklu leið sem þarf að vanda vel til, hvort sem er vegna hönnunar en líka vegna umhverfis og mannvirkisins sem slíks.