135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

staða efnahags-, atvinnu- og kjaramála.

[14:55]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin viðurkennir nú loksins að hún siglir þjóðarskútunni í kröppum sjó og hér stefnir að óbreyttu í verulegar breytingar og jafnvel atvinnuleysi á komandi missirum. Við því verður að bregðast sem fyrst. Hæstv. forsætisráðherra segir í viðtali við erlenda fjölmiðla að bankarnir þurfi að rifa seglin, hægja á útþenslu sinni og endurskoða stefnu sína.

Hæstv. forsætisráðherra mætti gjarnan tala skýrar hér og nú við þjóð sína. Hann telur sjálfur að bankarnir eigi alla möguleika á endurgreiðslu vegna skuldastöðu sinnar og erlendir lánveitendur þurfi ekkert að óttast um endurgreiðslu þeirra lána sem veitt hafa verið til íslenskra fjármálafyrirtækja.

Hvers vegna hefur þá skuldatryggingarálag íslensku bankanna hækkað margfalt á aðeins hálfu ári? Er það allt saman byggt á miklum misskilningi erlendra lánastofnana? Ef forsætisráðherra veit betur eins og ráða má af orðum hans ber honum að upplýsa það. Hvernig á ímyndarherferð til að róa erlenda fjárfesta að vera útfærð og á hverju byggir hún?

Forsætisráðherra segir að margir viti ekki hvað sé að gerast og við þurfum að taka á því, segir orðrétt í Morgunblaðinu í gær. Áður en þessi umrædda ímyndarherferð forsætisráðherra á erlenda grund verður farin á að upplýsa fólkið í landinu. Þingmenn, einkum stjórnarandstöðunnar, hafa margítrekað rætt um aðsteðjandi erfiðleika og hættur á atvinnuleysi og loksins nú einnig þingmenn úr ríkisstjórnarflokkunum sem farnir eru að lýsa áhyggjum sínum af því hvert við stefnum í efnahags- og atvinnumálum. Vonandi veit það á viðbrögð og athafnir.

Forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa hins vegar margsagt þegar þessi mál hafa verið rædd á Alþingi að við ættum ekki að tala okkur niður í kreppu og neikvæðni. Þessi viðbára í orðfæri ráðherra er undansláttur við efnislega umræðu um vandann nú í okkar landi. Á vordögum reið ríkisstjórnin á vaðið með ábyrgðarlausum niðurskurði þorskaflans niður í 130 þús. tonn sem mun bitna hart á okkur. Einkum mun þess sjá stað eftir að vetrarvertíðartímanum lýkur og skaða verulega markaðsstöðu okkar fyrir sjávarfang erlendis. Þau mistök ríkisstjórnarinnar verða vegvísir vaxandi atvinnuleysis á landsbyggðinni að óbreyttu. Þeirri stefnu á að breyta og það á að auka þorskkvótann eins og nú hefur gert varðandi loðnuveiðar. Um 40–50 þús. tonn til viðbótar í þorski mundi örva atvinnu og auka umsvif með skjótum hætti.

Uppsagnir eru hafnar á byggingarmarkaði og sala á íbúðarhúsnæði er mjög lítil. Bankarnir lána ekki og aðeins húsnæðislánasjóður er virkur í lánum til íbúðabygginga og raunar eina lánastofnunin sem veitir lán á landsbyggðinni. Sjálfstæðismenn vilja leggja þá lánastofnun niður ef þeir fengju því ráðið. Með hvaða ráðum vilja þeir vinna að jöfnum möguleikum fólks til þess að búa á landsbyggðinni og koma sér þaki yfir höfuðið? Það er fyrirsjáanlegt að atvinna verður minni en verið hefur og fjármálafyrirtæki munu draga úr mannaráðningum og fækka starfsmönnum. Umsvifin eru að minnka um þessar mundir og tekjur ríkisins fylgja þar á eftir og verða verulega lægri en gert var ráð fyrir í fjárlögum ársins. Góð staða ríkissjóðs og tekjuafgangur síðastliðinna ára gefa samt sem áður vissulega möguleika til aukinna opinberra verkefna en markvisst þarf að vinna að verkum sem auka atvinnu og tekjur okkar með þátttöku m.a. erlendrar fjárfestingar og innkomu fjármagns í íslenskt hagkerfi.

Við þingmenn Frjálslynda flokksins viljum vinna að aukinni atvinnu og höfum talað fyrir því í mörg ár að auka verulega framkvæmdir, m.a. með því að vinna hraðar og markvissara að því að bæta samgöngur, einkum með því að flýta jarðgangagerð og nauðsynlegum nýjum stofnbrautum eins og t.d. Sundabraut.

Við höfum lagt til að orkan á Norðausturlandi verði nýtt fyrir álver á Húsavík og að stjórnvöld móti stefnu og forgangsraði í áföngum varðandi virkjanir og þeim iðnaðarkostum sem hér verður unnið að á næstu árum.

Vandræðagangi ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum framtíðar verður að ljúka svo séð verði fyrir hvert þessi stjórn með 43 þingmenn á bak við sig vill stefna í aukinni atvinnu og auknum útflutningstekjum. Ástandið er þegar alvarlegt. Fyrir liggur að sagt verði upp 400–500 manns sem munu missa störf í sjávarútvegi á komandi mánuðum. Annar eins fjöldi hefur sennilega þegar misst atvinnu í öðrum greinum ef allt verður saman talið. Þessari þróun verður að snúa við. Fjöldaatvinnuleysi má ekki verða hér á landi. Við í Frjálslynda flokknum viljum vinna að aukinni atvinnu í landinu.

Frjálslyndi flokkurinn hefur barist fyrir því og talið það mikil verðmæti að landið væri sem mest í byggð og að á landsbyggðinni væri gott mannlíf og atvinna. Aðförin að landsbyggðarfólki með óréttlátu kvótakerfi er þekkt og engin sátt í sjónmáli, því miður. Nú herðir einnig að í landbúnaði vegna kostnaðarhækkana á aðföngum til landbúnaðar. Þær aðstæður gætu fækkað bændum og varla ætlar ríkisstjórnin að horfa á aðgerðalaus. Herra forseti. Ég hvet til þess að unnið verði með bændum að lausn vandans þó vissulega verði hækkun á vöruverði og afurðaverði til bænda þáttur í málinu.

Kjarasamningar hafa komist á á almennum vinnumarkaði og því ber vissulega að fagna. Á þeirri sátt þarf að byggja áfram og tryggja fulla atvinnu í landinu. Það eru aðrir kjarasamningar sem eru ógerðir í landinu og ríkisstjórnin ber mikla ábyrgð í öllu því ferli sem fram undan er í þeim efnum. Þar mun auðvitað reyna á hvernig til tekst. En það eru líka stéttir í opinbera geiranum sem þarf að bæta kjörin hjá og þar þarf að horfa til þess að fólk komist af á launum sínum og sé sátt við vinnustaði sína. Ella veitum við ekki þá þjónustu í velferðarþjóðfélagi sem okkur ber, hæstv. forseti.