152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

samþjöppun í sjávarútvegi.

[15:14]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég tel raunar að það sem hv. þingmaður bendir á, sem er þessi mikla samþjöppun aflaheimilda og þar með auðs í landinu, sé önnur meginástæðna þess djúpstæða vandamáls sem er í samfélaginu, vantrausts á þessari lykilatvinnugrein, meðan hin meginástæðan er sennilega sú sem lýtur að tilfinningunni fyrir því að fólk sé ekki að sjá sanngjarnan arð renna í sameiginlega sjóði. Ég held að það séu þessar tvær meginástæður.

Ég hef horft sérstaklega til þeirra atriða sem hv. þingmaður nefnir varðandi samþjöppun og tengda aðila. Ég held að það sé afar mikilvægt að grafast fyrir um þessi mál og fara í þá vinnu sem þarf að fara í, hvort sem það endar með frumvarpi eða öðru, því að þetta er meinsemd í þessu kerfi sem verður að komast fyrir með því að afla fullnægjandi upplýsinga í þessu efni.

Svo langar mig líka að nefna, og ég veit að hv. þingmaður þekkir það, vegna þess að nú er að fara af stað stór nefnd sem ætlar að fara í saumana á öllum þessum málum og ég hef óskað eftir tilnefningum í hana, að þá gæti líka komið til þess að við þurfum að huga sérstaklega að því hversu langur tími líður frá því að forsendur veiðigjalds koma fram þangað til að það er reitt af hendi. Ég nefni þá sérstaklega til að mynda uppsjávarflotann, eins og núna þegar við erum að sjá mikinn loðnuafla en væntanlega bara tekjur af því í ríkissjóð eftir tvö ár. Það er eitt af því sem við þurfum líka að horfa til.