149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

Schengen-samstarfið.

566. mál
[15:14]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra fyrir ágætisyfirferð og hina ítarlegu skýrslu sem hún hefur lagt fyrir þingið. Þótt við hæstv. ráðherra séum ekki sammála um allt virðumst við að minnsta kosti bæði gera okkur grein fyrir því að mikilvægi Schengen-samstarfsins er töluvert fyrir Ísland og raunar Evrópu alla. Að vísu vildi ég að ráðherra væri mér meira sammála um mikilvægi annars alþjóðasamstarfs, svo sem á vettvangi þróunarsamvinnu og Evrópumála, en hún er að minnsta kosti nær mér, heyrðist mér, en hv. þm. Karl Gauti Hjaltason, sem hér hefur nýlokið ræðu.

Eins og ráðherrann fór ágætlega yfir tekur Ísland þátt í Schengen-samstarfinu ásamt 25 Evrópuríkjum. Samstarfið snýr að því að tryggja frjálsa för einstaklinga innan Schengen-svæðisins, að samráði í eftirliti með ytri landamærum þátttökuríkjanna og að baráttunni gegn alþjóðlegri glæpa- og hryðjuverkastarfsemi. Þótt ég sé sammála ráðherra um mikilvægi þessa samstarfs get ég varla verið sammála henni um að Schengen-úttekt Evrópusambandsins hafi almennt komið ágætlega út. Aðgerðalisti stjórnvalda eftir úttektina er gríðarlega umfangsmikill og Ísland er langt frá því að uppfylla skuldbindingar sínar sem þátttakandi í þessu samstarfi. Eins og farið hefur verið yfir er samstarfið gríðarlega mikilvægt, ekki bara fyrir ferðafrelsi íslenskra ríkisborgara heldur öryggi í allri álfunni. Það að Ísland uppfylli ekki gæðakröfur og að svo alvarlegir annmarkar hafi komið í ljós, t.d. við framkvæmd landamæraeftirlits á Keflavíkurflugvelli, er auðvitað mjög alvarlegt mál. Úttektin sneri ekki eingöngu að landamæraeftirliti heldur komu einnig alvarlegir veikleikar í ljós í stjórnskipulagi málaflokksins í heild. Þjálfun og menntun starfsmanna uppfyllir í dag heldur ekki lágmarkskröfur um mannafla, búnað og áhættugreiningar — þær vantar líka á þessum vettvangi. Ég velti fyrir mér hvort málaflokkurinn hafi verið látinn sitja svolítið á hakanum fyrst svo alvarlegar athugasemdir koma í ljós.

Mér finnst líka ólíklegt, miðað við umfang athugasemda, að ekki hafi verið hægt að bregðast betur við, sérstaklega í ljósi þess að þetta er ein af þeim alþjóðastofnunum sem við höfum hvað greiðastan aðgang að í hagsmunagæslu, eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra. Það eru líka nefnd dæmi um það í skýrslunni. Ísland á sem sagt seturétt á öllum stigum ákvarðanatöku í dóms- og innanríkismálaráði ESB. Hæstv. innanríkisráðherra er þannig eini ráðherra Íslands sem fær boð um að sitja ráðherrafundi ESB. Að þessu leyti höfum við meira að segja og getum fylgst betur með málefnum tengdum Schengen en flestum öðrum málefnum sem falla undir EES-samninginn. Kannski er það svolítið kaldhæðnislegt að hæstv. ráðherra þess stjórnmálaflokks sem hvað hatramlegast hefur barist gegn frekari þátttöku í Evrópusamstarfi skuli sitja ráðherrafundi ESB eða getað setið þá. Nú eru raddir uppi um það að við eigum jafnvel að slíta þessu samstarfi eða eigum að standa utan þess. Ég spáði því þegar ég var að lesa þessa skýrslu að slíkar raddir ættu eftir að heyrast í þessari umræðu og þurfti ekki lengi að bíða. Hv. þm. Karl Gauti Hjaltason staðfesti þann grun.

Við lifum á þannig tímum að alþjóðastarf hefur aldrei verið jafn mikilvægt og nú. Við þurfum einmitt á meira og nánara samstarfi að halda við aðrar þjóðir, alls ekki minna. Í heimi sem er fullur af öfgum, þar sem alið er á hatri, tortryggni og hræðslu verður það umburðarlyndi og samvinna, samhjálp og víðsýni sem ákvarðar hvort mannkyninu miðar áfram og muni auðnast að eiga gott líf á jörðinni. Við stöndum frammi fyrir fjölmörgum málum sem snerta á þessu, loftslagsmálum, fátækt og ófriði. Í loftslagsmálum getum við sökum smæðar fyrst og fremst gengið á undan með góðu fordæmi, uppfyllt skuldbindingar okkar, hvatt til metnaðarfullrar lagasetningar og raunhæfrar sóknar í alþjóðasamstarfi. Dæmi um slíkt samstarf er reyndar innleiðing þriðja orkupakkans sem bíður nú þingsins og stendur hugsanlega í einhverjum þingmönnum hér. Þar er um að ræða samevrópskt verkefni sem er ætlað að styðja skynsamlega, vistvæna og sjálfbæra orkunýtingu álfunnar. Fátækt er önnur risastór áskorun og tengist för fólks frá öðrum heimshlutum hingað, en hún er auðvitað bæði orsök og afleiðing þriðju ógnarinnar sem er ófriður og útilokað, að minnsta kosti ólíklegt, að við munum upplifa heimsfrið fyrr en fátækt hefur verið upprætt. Það er stórt áhyggjuefni að ójöfnuður fer vaxandi í heiminum og í dag eigi ríkasta prósentið jafn mikið og hin 99%. Þetta eru tölur sem margoft er búið að tyggja hér uppi í stól. Og á Íslandi er þessi ójöfnuður líka að aukast og 5% Íslendinga eiga jafn miklar eignir og hin 95%. Það er því ágætisframlag Íslands að ráðast gegn ójöfnuði. En þetta er kannski smáútúrdúr.

Stór hluti af okkar alþjóðlegu skuldbindingum felst líka í þróunarsamvinnu. Þar finnst mér ríkisstjórnin vera metnaðarlítil. Ríkisstjórnin nær einungis í lok fjármálatímabilsins upp í hálft markmið Sameinuðu þjóðanna um hlutfall af þjóðarframleiðslu sem mælst er til að vestræn ríki setji sér. Það er auðvitað fyrir neðan allar hellur. Og loks er það ófriðurinn. Um afleiðingar hans þarf auðvitað ekki að fjölyrða. Þó að Ísland muni ekki leika afgerandi hlutverk í baráttu gegn honum berum við mikla ábyrgð og getum beitt okkur með afgerandi hætti, ekki síst í mannúðar- og hjálparstarfi og með áherslu á friðar- og jafnréttismál. Með langvarandi stríðsátökum, ofbeldi og ofsóknum sem og neikvæðum áhrifum loftslagsmála verður þörf fyrir mannúð, þörf fyrir að hjálpa utanaðkomandi fólki sem ferðast inn á Schengen-svæðið. Hér getum við, hæstv. forseti, axlað miklu meiri ábyrgð, sérstaklega gagnvart fólki sem er í viðkvæmri stöðu og leitar alþjóðlegrar verndar, ekki síst börnum. Mér hefur reyndar fundist nöturlegt hvernig hæstv. dómsmálaráðherra hefur hunsað gjörsamlega vilja Alþingis og þrengt að þessum hópi með reglugerð í fyrra sem Samfylkingin og fleiri hafa gagnrýnt og mér líst reyndar ekki mjög vel á þær nýju breytingar sem boðaðar eru á útlendingalögum og um alþjóðlega vernd.

Herra forseti. Að lokum: Hæstv. ráðherra fór yfir þær aðgerðir til úrbóta sem Ísland þarf að ráðast í til að fullnægja skilyrðum Schengen-samstarfsins. Þær úrbætur munu fyrirsjáanlega verða kostnaðarsamar en úr því sem komið er tel ég það eina rétta í stöðunni að auka fjármagn töluvert til málaflokksins, eins og raunar er gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Ég hvet þess vegna ráðherra til að vanda til verka, sér í lagi hvað varðar þátttöku Íslands í vettvangi samstarfsins, og hugsa lengra til framtíðar í úrbótavinnu og stefnumótun málaflokksins.