139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

ástandið í Líbíu.

[15:02]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Mig langar að eiga orðastað við utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, vegna ástandsins í Líbíu. Heimsbyggðin hefur fylgst spennt með þeirri lýðræðis- og uppreisnarbylgju sem hefur farið um Miðausturlönd og Norður-Afríku. Víðast hvar hafa mótmælin farið friðsamlega fram og alið manni þá von í brjósti að hægt sé að gera uppreisn á 21. öldinni með nokkuð friðsömum hætti. Þannig er því þó ekki háttað í Líbíu. Þar hafa mótmæli staðið yfir á aðra viku og eru að verða mjög blóðug. Eftir því sem fréttir herma hafa yfirvöld jafnvel ráðist á fólk úr flugvélum og þyrlum. Talað er um áður óþekkt vopn í því sambandi og Sameinuðu þjóðirnar vara við hugsanlegum stríðsglæpum.

Nú langar mig að spyrja hvort utanríkisráðherra hyggist reyna að leggja einhver lóð á vogarskálar lýðræðisins í þessu máli, t.d. með opinberri yfirlýsingu, eða hvort hann telji að íslensk stjórnvöld geti gert eitthvað meira eða beitt sér að öðru leyti við þessar aðstæður.