144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[16:47]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi fyrri spurningu hv. þingmanns get ég alveg verið hreinskilinn með það sem vakti mig til umhugsunar um að setja inn í lögin eitthvað sem kæmi í veg fyrir að menn settu upp sýndareigendur að fjármálafyrirtækjum til þess að vera einhvers konar milliliðar á milli vanhæfs eiganda, sem gæti t.d. verið vanhæfur vegna þess að hann er ekki greiðsluhæfur eða er í slitameðferð sjálfur en á hugsanlega mikið af eignum, fullnustueignum, þótt þær séu minni en kröfurnar sem eiga að standa og hann gæti átt ráðandi hlut í fjármálafyrirtæki með milligöngu einhvers fyrirtækis sem væri þá í raun og veru bara skúffufyrirtæki. Ég sé þetta ekki í lögunum, ég er þó ekki búinn að skoða þau nægilega, en hugsanlega er girt fyrir það nú þegar í þeim. Sé ekki svo þarf að skoða það mjög vandlega. Þetta er eitt af því sem við þurfum að skoða í nefndinni.

Varðandi sterka eiginfjárstöðu bankanna, sérstaklega þessara stóru, og möguleikana á að nýta tækifærið til að setja hana í lög núna er náttúrlega aldrei rétti tíminn til að setja svona sterkar eiginfjárkröfur að mati bankamanna, þeir telja það alls ekki þurfa þegar það eru góðir tímar og alls ekki hægt þegar það eru vondir tímar. Ég mundi segja að rétti tíminn væri þegar eiginfjárhlutfallið er sterkt, það slagar hátt í 30%, ætli það sé ekki á bilinu 25–30% í stóru bönkunum í dag. Það er því einstakt tækifæri fyrir þingið til þess að gera þetta núna í stað þess að fela embættismönnum að gera það seinna þegar partíið er byrjað aftur og í raun getur það valdið erfiðleikum að setja slíkar kvaðir á seinna. Þetta er eitthvað sem við þurfum að hugleiða alvarlega. Ég treysti mér ekki til að segja af eða á núna. Það hljóta að vera sjónarmið með og á móti. Þetta er eitthvað sem við verðum að skoða.